Töflur

Töflur um efnainnihald matvæla byggðar á ÍSGEM gagnagrunninum

Íslenski gagnagrunnurinn um efnainnihald matvæla (ÍSGEM). Birting á vefsíðu Matís 2009.

ÍSGEM gagnagrunnurinn geymir upplýsingar um efnainnihald matvæla sem eru á íslenskum markaði. Hluti gagna í gagnagrunninum er birtur hér á vefsíðu Matís. Áður hafa verðið gefnar út næringarefnatöflur sem prentaðar handbækur og sem pdf skjöl á vefsíðu Matís.

  • Birtar eru fáanlegar upplýsingar um 45 efni í um 900 fæðutegundum. Meðal efnanna eru prótein, fita, kolvetni, vatn, vítamín, steinefni og fjögur óæskileg efni; kvikasilfur, blý, kadmín og arsen.
  • Ein tafla er fyrir hverja fæðutegund.
  • Allar töflurnar sýna innihald í 100 grömmum af ætum hluta.
  • Gildi í ÍSGEM gagnagrunninum lýsa samsetningu þeirra sýna sem voru efnagreind. Ef samsetningin var metin með útreikningum eiga niðurstöðurnar aðeins við viðkomandi uppskrift og forsendur. Efnainnihald flestra fæðutegunda er breytilegt og því getur verið að gildi í ÍSGEM eigi ekki við öll sýni af viðkomandi fæðutegund.
  • Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um gögnin hér til vinstri á síðunni.

Uppbygging taflna
Hver tafla er byggð upp fyrir eina fæðutegund. Efst er heiti fæðutegundar á íslensku og ensku og latneskt heiti þegar við á. Afskurður er gefinn upp sem prósent. Birt eru reiknuð gildi fyrir orku og orkudreifingu. Hvert efni fær eina línu og eru eftirtaldar upplýsingar skráðar þegar þær eru fyrir hendi: Heiti efnis, eining, innihald, lægsta gildi, hæsta gildi, fjöldi, gæðastuðull, mæliár og heimild. Nánari upplýsingar um þessi atriði eru hér að neðan.

Heiti fæðutegunda
Matvælum eru oft gefin heiti þannig að skyld matvæli raðist saman. Fremst er þá nokkurs konar yfirflokkur og síðan er skilgreiningin á matvælinu þrengd. Sem dæmi má taka: (1) SÍLD, marineruð. (2) SÍLD, marineruð, ásamt sósu. (3) SÍLD, reykt flök.

Afskurður
Með afskurði er átt við þann hluta matvörunnar sem er ekki borðaður, hvort sem um er að ræða hýði, roð, bein eða annað slíkt. Gildi í töflunum eru alltaf gefin upp fyrir ætan hluta matvörunnar. Oft vantar upplýsingar um afskurð og gildin geta verið mismunandi eftir því við hvað er miðað. 

Orkugildi
Orkugildi matvælanna er reiknað út frá magni próteins, fitu, kolvetna, trefjaefna og alkóhóls.

Heiti efnis
Hægt er að finna skilgreiningar á efnunum undir Skýringar og Efnin hér til vinstri.

Eining
Einingar eru g, mg eða µg.

Innihald
Gefið upp besta fáanlega mat fyrir viðkomandi efni í þeirri fæðutegund sem um ræðir. Oft er byggt á meðaltali þegar upplýsingar eru til um breytileika. Magn efna er gefið upp í 100 g af fæðu. Öll gildi fyrir efnasamsetningu eiga við fæðuna eftir að afskurður (bein, hýði o.fl.) hefur verið fjarlægður. Hægt er að ganga út frá því að matvælin séu hrá eða fersk nema annað sé tekið fram. Stundum eru gefnar upplýsingar bæði um hrá og matreidd matvæli.

Lægstu og hæstu gildi
Þessi gildi eru alltaf gefin upp þegar fyrir liggja upplýsingar um breytileika í gögnunum.

Fjöldi
Með fjölda er átt við fjölda þeirra sýna sem voru efnagreind. Þegar gildi byggja á mælingum er því gefinn upp fjöldi sýna en þegar byggt er á útreikningum er þessi reitur auður.

Gæðastuðull
Gæðastuðull (e. confidence code) segir til um gæði þeirra gagna sem hafa verið metin með tilliti til gæða eftir stöðluðu gæðakerfi. Við gæðamatið er gefin einkunn fyrir 30 gæðaþætti sem ná yfir skilgreiningu á sýnum, sýnatökuáætlun, efnamælingar og skilgreiningu á mældu efni. Einkunnir eru lagðar saman og niðurstaðan skráð sem A, B eða C út frá summunni. A stendur fyrir mest gæði en C lökust gæði. Gildi sem fá gæðastuðulinn C getur þurft að taka með fyrirvara. C er oftast tilkomið vegna þess að fleiri mæliniðurstöður vantar til að fá gott mat fyrir viðkomandi efni.

Mæliár
Mæliár segir til um það hvenær mæling var gerð.

Heimildir
Heimildanúmerin eru afar mikilvæg, en þau gera mögulegt að finna hvaðan gögnin eru tekin. Hægt er að nálgast heimildaskrána hér til vinstri. Heimildanúmerin eru einnig notuð til að sýna hvenær byggt er á útreikningum. Heimildanúmer 1000-1099 gefa til kynna mismunandi aðferðir við útreikninga og mat á gögnum. Niðurstöður íslenskra mælinga hafa heimildanúmer 1100-1599 og gögn frá íslenskum matvælaframleiðendum og innflytjendum hafa númer 1600-1699. Erlend gögn hafa númer 1800-1999. 

Gögnin eru fengin eftir ýmsum leiðum: (1) Niðurstöður innlendra efnagreininga eru venjulega bestu gögnin. (2) Reiknuð gildi. Dæmi: A vítamín í mjólkurafurðum er hægt að reikna út frá magni þess í mjólkurfitu. (3) Samsetning er stundum reiknuð út frá uppskrift. (4) Gildi úr erlendum næringarefnatöflum, skýrslum og greinum. (5) Áætluð gildi. (6) Gildi fyrir skyldar fæðutegundir eru stundum notuð.

Gæði og áreiðanleiki gagna
Líta ber á þau gildi sem hér eru birt sem viðmiðunargildi en ekki gildi sem eru nákvæm við allar aðstæður. Gögnin geta aldrei gefið annað en mat á efnainnihaldi matvæla. Því þarf að hugleiða hvort matið sé fullnægjandi miðað við þær kröfur sem gerðar eru. Notendur gera mismunandi kröfur. Sá sem er að meta neyslu lætur oft meðaltal nægja en þegar spurning er um það hvort næringarþörfum sé fullnægt þarf að hafa upplýsingar um lægstu og hæstu gildi.

Efnainnihald margra matvæla er breytilegt frá náttúrunnar hendi. Sem dæmi má taka að umtalsverð árstíðasveifla er í fituinnihaldi síldar. Gefið er upp besta mat fyrir fituinnihald síldar, það getur verið meðaltalið en mikilvægt er að þekkja einnig lægstu og hæstu gildin. Munur getur verið á efnainnihaldi unninna matvara eftir framleiðendum. Venjulega eru birt meðaltöl eða vegin meðaltöl í þessum tilfellum. Í nokkrum tilfellum eru þó birt gildi fyrir einstök vörumerki og er stefnan sú að það verði gert í auknum mæli.

Upplýsingar um fjölda mælinga og heimild gefa verulegar upplýsingar um það hversu áreiðanlegar niðurstöðurnar eru. Ganga má út frá því að með mælingum fáist betra mat en með útreikningum. Sömuleiðis eiga mælingar á matvælum á íslenskum markaði betur við en gildi í erlendum heimildum. Því fleiri sem mælingarnar eru því betra er matið svo framarlega sem um sambærileg matvæli sé að ræða.

Gildi fyrir eina fæðutegund þarf yfirleitt að taka úr nokkrum heimildum. Einnig þarf oft að nota ólíkar heimildir fyrir skyldar fæðutegundir. Þetta býður heim hættu á ósamræmi en reynt er að samræma gögnin eins og hægt er.