World Seafood Congress verður haldin í Reykjavík 10. – 14. september 2017

9.9.2015

World Seafood Congress (WSC) 2015 er rétt að ljúka en ráðstefnan er haldin að þessu sinni í Grimsby á Englandi. Í lok hverrar ráðstefnu er tilkynnt hverjir halda þá næstu og tilkynnt var rétt í þessu að WSC 2017 verður haldin í Reykjavík 10. – 14. september 2017.

Mikill heiður fylgir því að fá að halda WSC en ráðstefnan er mjög stór og dregur að borðinu fólk úr öllum hornum sjávarútvegs og fiskveiða, frá villtum veiðum til fiskeldis og allt þar á milli. Á ráðstefnuna koma aðilar frá útgerðum, fiskvinnslum, innflutningsaðilum, útflutningsaðilum, fólki úr menntastofnunum, fyrirtækjum og ríkisreknum stofnunum úti um allan heim.

WSC_2017

Meginþema

Meginþema ráðstefnunnar 2017 er vöxtur í bláa lífhagkerfinu en bláa lífhagkerfið er tilvísun í mikilvægi hafsins þar sem veruleg tækifæri liggja til vaxtar, nýsköpunar, rannsókna, markaðssetningar með matvælaöryggi, fæðuöryggi, sjálfbærni og matarheilindi að leiðarljósi.

Áhersluatriði:

  • Nýsköpun í sjávarútvegi – nýjar vörur og möguleikar til fjárfestinga
  • Matvælaöryggi – forsenda nýsköpunar í matvælaframleiðslu og alþjóðlegrar verslunar með mat
  • Matar heilindi – baráttan gegn svikum í matvælaframleiðslu og –sölu á tímum netverslunar, matartengdar ferðaþjónustu og ósk neytenda um rekjanleika í matvælaframleiðslu

Nánari upplýsingar veitir Sigrún Elsa Smáradóttir (858-5113) eða Steinar B. Aðalbjörnsson (858-5111).

Heimasíða ráðstefnunnar: www.wsc2017.com
Twitter: @WSC_2017
Facebook: World Seafood Congress


Fréttir