• Shutterstock_1680545872

Umræðuhópar fyrir rannsóknarverkefni Matís

1.5.2020

Við hjá Matís leitum eftir fólki til að taka þátt í umræðuhópum fyrir rannsóknarverkefni sem stýrt er af sérfræðingum Matís. Umræðurnar snúast um mataræði, matvörur, og innihaldsefni matvara, og eru hluti af nýju rannsóknarverkefni sem er styrkt af Evrópusambandinu og byggir á samstarfi aðila frá nokkrum löndum.

Tilgangur rannsóknarinnar er að fá upplýsingar um mataræði neytenda og innsýn í viðhorf þeirra til ýmissa gerða matvara og innihaldsefna þeirra. Þátttaka í rannsókninni felst í að ræða viðfangsefnið í 4-6 manna hópi neytenda og verður umræðunum stýrt af starfsmanni Matís. Í umræðuhópunum verða þátttakendur spurðir út í mataræði sitt og viðhorf til matvara og innihaldsefna af ýmsum gerðum.

Umræðurnar verða haldnar í gegn um Teams fjarfundarbúnaðinn. Þátttakendur þurfa því að hafa tölvu eða síma til ráðstöfunar. Einnig þurfa þátttakendur að hafa rafræn skilríki. Aðstoð verður veitt við tæknileg vandamál í gegn um netið ef á þarf að halda. Gert er ráð fyrir að umræðurnar taki að hámarki tvo tíma. Þátttakendur fá senda 5.000 Kr. þóknun eftir umræðurnar.

Umræðurnar verða teknar upp, bæði hljóð og mynd, og unnið verður úr niðurstöðum samkvæmt aðferðafræði fyrir eigindlegar rannsóknir. Nöfn þátttakenda, eða aðrar persónuupplýsingar, munu hvergi koma fram í túlkun niðurstaða, skýrslum, greinum eða öðru efni þar sem fjallað verður um rannsóknina. Vinnsla gagna verður í samræmi við persónuverndarlög.

Samsetning einstaklinga í rýnihópunum fer eftir ýmsum fyrirfram ákveðnum bakgrunnsþáttum og neysluhegðun. Ef þú hefur áhuga á að taka þátt í umræðuhópunum mátt þú smella á tengilinn hér að neðan sem vísar þér í stutta könnun þar sem spurt er út í þá þætti sem ráða vali á þátttakendum. Ef þú uppfyllir skilyrði fyrir þátttöku verður þú beðin(n) að gefa upp nafn, símanúmer og tölvupóstfang í lok könnunarinnar. Þá verður fljótlega haft samband við þig um hvort þér býðst að taka þátt, og þá skipulag og tímasetningu umræðuhópanna.

https://www.surveymonkey.com/r/F3PTT78


Fréttir