Tæknivæðing fiskvinnslu í Kanada

28.11.2016

Matís var þátttakandi á ráðstefnu á vegnum CCFI (The Canadian Center for Fisheries Innovation www.ccfi.ca) 15.-16. nóvember sl. en ráðstefnan (Process Automation in Seafood Processing www.ccfi.co/workshop) fjallaði um framtíð tæknivæðingar og notkun sjálfvirkni í fiskvinnslu í Kanada.

Undanfarin ár hefur tækniþróun í uppsjávar- og bolfiskvinnslu fleytt hratt fram á Íslandi og horfa nú önnur lönd til okkar og þess árangurs sem hér hefur náðst.

Fulltrúar Íslendinga á ráðstefnunni voru Sæmundur Elíasson frá Matís og Ögmundur Knútsson frá Háskólanum á Akureyri.

Í erindi Sæmundar var fjallað um þá tækniþróun sem hefur rutt sér til rúms í íslenskum sjávarútvegi. Í uppsjávarvinnslu hefur sá árangur náðst að ferlar í veiðum og vinnslu eru að mestu leiti sjálfvirkir og hvergi í ferlinu snertir mannshöndin fiskinn. Verklagið eykur matvælaöryggi og auðveldar rekjanleika afurða í gegnum vinnsluferlin.

Bolfiskvinnslan á íslandi hefur í gegnum tíðina krafist meiri erfiðisvinnu við vinnslu en nýlegar tæknilausnir eru að snúa þeirri þróun við þannig að fleiri störf eru að færast í gæðastjórnun og eftirlit. Í landvinnslu bolfisks hefur verið bylting í skurðartækni flaka sem fer nú fram í sjálfvirkum vélum. Einnig hafa stærri vinnslur tæknivætt pökkun og frágang afurða þar sem þjarkar (e. robots) sjá um verkið.

Þáttur í tæknivæðingu íslendinga hefur einnig teygt anga sína út á sjó þar sem stýringar á blæðingar- og kæliferlum hafa aukist. Nýjustu togararnir verða einnig búnir sjálfvirkni í færslu kera af millidekki og niður í lest skipanna en sú þróun mun gjörbylta vinnuumhverfi sjómanna og auka bæði öryggi manna og afla um borð. Loks var í erindinu farið yfir hvata og áskoranir þeirra aðila sem að tækniþróuninni koma en þar eru samvinna framleiðanda, þróunaraðila, rannsókna og stjórnvalda lykilatriði að árangri.

Erindi Ögmundar fjallaði um sögu og þróun íslensks sjávarútvegs þar sem farið var yfir þróun fiskveiðistjórnunar, veiða, skipaflota og sett í samhengi við verðmætasköpun sem hefur aukist töluvert undanfarna áratugi. Þrátt fyrir minna veitt magn hefur íslendingum tekist að auka verðmætasköpun þess fisks sem kemur úr sjó með bættri nýtingu og verðmeiri afurðum. Tæknivæðing og sjálfvirkni hefur spilað stóran þátt í þeirri þróun og einnig hjálpað til við að staðla framleiðslu og lengja geymsluþol ferskra afurða, sem er mikilvægt fyrir íslendinga vegna fjarlægðar frá mörkuðum.

Áhersla íslendinga á þessa tækniþróun hefur skapað tækifæri fyrir útflutning tæknilausna og áhugi Kanadamanna leyndi sér ekki. Þeirra aðstæður eru að mörgu leiti frábrugðnar þar sem mestu verðmæti sjávarfangs eru í krabba-, humar og skelfiskvinnslu. Mikil áhersla er sett á þessar verðmiklu tegundir meðan bolfiskur og uppsjávarfiskur mæta afgangi. Það vakti því áhuga Kanadamanna hversu mikið verðmæti íslendingar ná að skapa úr því hráefni og mikið var einnig rætt um hagkvæmi fiskveiðistjórnunarkerfis íslendinga í samanburði við það Kanadíska.

Ljóst er að tæknivæðing og sjálfvirkni sjávarútvegs leiðir til margra tækifæra og athyglivert er að íslendingar séu leiðandi afl í þeirri þróun. Þessi þróun mun skapa þörf fyrir aukna menntun og sérþekkingu í iðnaðinum og breyta störfum í sjávarútvegi þar sem framleiðslugeta og afurðagæði aukast til muna.


Fréttir