• Pix.is-Salt-112

Saltfiskmáltíð á Selfossi varð að ferð til Barcelona

4.11.2019

Fjölmargir Íslendingar, um allt land, nýttu tækifærið í Saltfiskvikunni, sem blásið var til fyrr í haust, og smökkuðu þessa einstöku afurða sem á sér svo marga aðdáendur víðsvegar um heim. Viðskiptavinir sem pöntuðu sér saltfiskrétt á einhverjum þeirra veitingastaða sem þátt tóku í átakinu voru sérstaklega hvattir til að birta mynd á Instagram, merkta myllumerkinu #saltfiskvika, en með því komust þeir í verðlaunapott sem dregið yrði úr.

Einn heppinn þátttakandi var dreginn út að vikunni aflokinni en í verðlaun var ferð fyrir tvo til Barcelona. Sú heppna varð Jóna Dóra Jónsdóttir á Selfossi en hún hafði snætt saltfisk á veitingastaðnum Riverside á Hótel Selfossi. Auk ferðar til Barcelona fyrir tvo fær hún einnig saltfiskveislu fyrir tvo á veitingastaðnum La Gourmanda þar í borg en það er einmitt veitingastaður Carlotu Claver sem var ein erlendu gestakokkanna á Saltfiskvikunni.

SPA-Carlota-Claver

Meistarakokkurinn Carlota Claver.

Heilt yfir tókst Saltfiskvikan afar vel og nú þegar eru upp áform um að endurtaka leikinn næsta haust. Þegar spurt var sögðust langflestir forsvarsmanna þeirra ríflega 20 veitingastaða og mötuneyta sem þátt tóku í ár ánægðir með framtakið, sögðu m.a. að það skemmtileg tilbreyting auk þess að hafa góð áhrif á fjölbreytni og sköpunargleði á vinnustaðnum. Þá var einnig nefnt hve mikilvægt væri að kynna hráefnið ekta saltfisk fyrir bæði Íslendingum sem og erlendum ferðamönnum.

Ljóst er að saltfiskurinn á enn mikinn hljómgrunn hjá landanum sem og gestum hans - þótt mögulega hafi þessi dýrmæta útflutningsvara látið helst til of lítið fyrir sér fara á heimaslóð undanfarin ár. Verður að teljast fullt tilefni til að blása aftur til Saltfiskviku honum til heiðurs að ári.

Að Saltfiskvikunni stóðu Matís, Íslandsstofa, Kokkalandsliðið og Félag íslenskra saltfiskframleiðenda.


Fréttir


Tengiliður