• Asta_Heidrun_E_Petursd_svhv_vef_wide

Nýr sviðsstjóri lýðheilsu og matvælaöryggis

11.2.2021

Í dag 11. febrúar er alþjóðlegur dagur kvenna í vísindum. Það er því vel við hæfi að varpa ljósi á eina öfluga vísindakonu og kynna í leiðinni til leiks nýjan sviðsstjóra lýðheilsu og matvælaöryggis hjá Matís., Dr. Ástu Heiðrúnu E. Pétursdóttur.

Ásta Heiðrún útskrifaðist sem efnafræðingur frá Háskóla Íslands árið 2008 og hóf þá mastersnám í samstarfi við Matís og Háskóla Íslands, en verkefnið fólst í því að rannsaka mismunandi efnaform arsens í fiskimjöli.

Ásta Heiðrún hóf doktorsnám við Háskólann við Aberdeen haustið 2010 og lauk námi snemma árs 2014. Ásta sýndi fljótt hæfileika á rannsóknasviði og við miðlun upplýsinga. Hún fékk ýmsa styrki til að sækja ráðstefnur og viðburði víða um heim. Rannsóknir Ástu á meðan doktorsnámi stóð urðu að samsafni 6 ritrýnda greina og bókakafla sem birtust á meðan námi stóð og 3 greina sem birtust í kjölfar doktorsritgerðar. Rannsóknir Ástu sneru fyrst og fremst að því að þróa aðferðir til greininga á mismunandi efnaformum arsens. 

Síðastliðin ár hefur Ásta t.d. leitt evrópskt rannsóknaverkefni sem snýr að því að skoða metanlosun kúa eftir þörungagjöf og sömuleiðis er hún í forsvari fyrir eflingu öryggis í starfsumhverfi Matís.

Ásta er öflugur vísindamaður og mjög framarlega á sviði efnagreininga en hennar vinna hefur ekki einungis haft akademísk áhrif heldur einnig á reglugerðir og framkvæmd þeirra, auk þess sem rannsóknaniðurstöðunum hefur verið miðlað til mjög breiðs hóps og þannig náð til vísindamanna, hagaðila og almennings. Rannsóknaáhugi Ástu er sífellt að færast yfir á svið loftslagsmála sem er ein stærsta áskorun sem heimurinn stendur frammi fyrir.


Fréttir