• Sjöfn, Þorsteinn og Vilhjálmur Egilsson

Góður fundur Rf og HA á Akureyri

26.11.2004

Þriðjudaginn 23. nóv. sl. héldu Rf og Auðlindadeild HA málþing á Akureyri undir yfirskriftinni Matvælarannsóknir á Norðurlandi. Um 60 manns sóttu fundinn, sem þótti takast vel. Á fundinum kom fram vilji til áframhaldandi samstarfs Rf og HA varðandi uppyggingu matvælarannsókna norðan heiða. Fundurinn var haldinn í Borgum, hinu nýja rannsókna- og nýsköpunarhúsi HA, en fyrir utan glæsilega kennsluaðstöðu eru ýmis fyrirtæki og stofnanir þar með aðstöðu, þar á meðal Rf.

Það var Árni M. Mathiesen, sjávarútvegsráðherra, sem opnaði málþingið. Í ávarpi sínu kom ráðherra víða við, talaði m.a. um hlutdeild Rf í matvælarannsóknum hér á landi, en sú saga spannar nú hartnær 70 ár. Þá ræddi hann um fyrirhugaðar breytingar á fyrirkomulagi þeirra matvælarannsókna sem stundaðar eru af opinberum stofnunum í ljósi tillagna sem starfshópur á vegum stjórnvalda hefur nýlega skilað inn, en þar er m.a. lagt til að sameina beri slíkar rannsóknir undir einni stofnun.  Sagði ráðherra að starfshópurinn hefði haft það að leiðarljósi að stuðla að hagræðingu, samræmdum vinnubrögðum og betri þjónustu við sjávarútveg, landbúnað og annan matvælaiðnað... og var jafnframt falið að gera tillögur um formlegt samstarf nýrrar stofnunar og háskólanna í landinu í því augnamiði að tryggja samvinnu um menntun, rannsóknir og þróunarstarf og stuðla jafnframt að gagnkvæmu flæði starfsmanna og verkefna milli stofnana, háskóla og atvinnulífs.

Þá sagði Árni M. Mathiesen: Eins og skipulagið er nú fara matvælarannsóknir sem kostaðar eru af ríkinu að mestu fram hjá fjórum stofnunum: Iðntæknistofnun, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Rannsóknastofu Umhverfisstofnunar og síðast en ekki síst hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Eðli málsins samkvæmt er sú síðastnefnda stærst, þar sem framleiðslan í atvinnugreininni sem hún þjónar er lang umfangsmest. Ef tekið er mið af starfsmannafjölda þá vinna 56 hjá Rf á meðan níu starfa hjá MÖTRU, þ.e. samstarfsvettvangi Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og 11 manns hjá Rannsóknastofu Umhverfisstofnunar. Þá varpar sú staðreynd að um 40% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar verða til fyrir tilstuðlan sjávarútvegsins ljósi á mikilvægi greinarinnar fyrir afkomu þjóðarinnar.  Í ljósi þessa væri eðlilegt að fallast á niðurstöður starfshópsins um að slík sameinuð stofnun myndi heyra undir Sjávarútvegsráðuneytið.

Ráðherran lagði einnig áherslu á að ábyrgð á rannsóknum og uppbyggingu þekkingar hvíldi ekki eingöngu á hinu opinbera, heldur ekki síður hjá heimamönnum og fyrirtækjum á hverju svæði.  Norðlendingar stæðu hér vel að vígi, matvælaiðnaður á Norðurlandi væri rótgróin atvinnugrein, þar væri m.a. að finna tvö af öflugustu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins og blómlegur landbúnaður væri þar undirstaða stórra framleiðslufyrirtækja.

Að lokum gerði ráðherra framtíðina að umfjöllunarefni, sem hann sagði m.a. felast í frekari uppbyggingu sjávardýraeldis og einnig í líftækni.  Við þróun í þessa átt hefði AVS rannsóknasjóðurinn skipt sköpum.  Einnig hér væri staða Norðurlands sterk.  Nú þegar væri víðtækt samstarf Rf, Hólaskóla og HA til staðar og frekari uppbygging á döfinni.  Annað verkefni sem AVS sjóðurinn kemur að og er vistað hjá Háskólanum á Akureyri er átaksverkefni í líftækni eða Líftækninetið. Verkefnið er samstarfsverkefni þriggja ráðuneyta, sjávarútvegs-, iðnaðar og menntamálaráðuneytis. Sagði Árni að Líftækninetið, sem hefur einn starfsmann á sínum vegum, væri gott dæmi um það hvernig nokkur ráðuneyti geta tekið höndum saman í þeim tilgangi að efla einstök verkefni. Aðkoma sjávarútvegsins fælist í samvinnu við AVS verkefnið. 

Árni sagði að eitt af því sem sérstaklega þyrfti að leggja áherslu á í framtíðinni væri að rannsaka og hafa yfir að ráða nægum og tryggum upplýsingum um efnainnihald fisks sem veiddur er af íslenska fiskiskipaflotanum.  Þar hefði Rf unnið gott starf á undanförnum misserum og  nefndi hann að í fjárlagafrumvarpi því sem nú liggur fyrir Alþingi væri gert ráð fyrir 30 milljónum sem sérstaklega eru ætlaðar í þetta verkefni og því tryggt að áframhaldandi uppbyggingu verður á þessu sviði.  Munu viðbótarmælingar á heilnæmi sjávarfangs fyrst og fremst fara fram í nýrri aðstöðu Rf á Akureyri.  Lesa ávarp ráðherra

Að loknu ávarpi ráðherra steig Þorsteinn Gunnarsson, rektor HA í pontu.  Í ávarpi sínu stiklaði hann m.a. á stóru um þróun Auðlindadeildar HA á undanförnum árum, en Sjávarútvegsdeild HA tók til starfa árið 1990 en var breytt í Auðlindadeild 2002.  Að sögn Þorsteins er Auðlindadeildin nú eina deildin innan íslenskra háskóla sem leggur áherslu á hið þverfaglega svið auðlindafræða, þar sem saman fara nám og rannsóknir í raunvísindum og tæknigreinum samhliða áherslum á auðlindahagfræði, stjórnunar- og markaðsfræði. Sagði hann slíka menntun vera forsendu góðrar auðlindastjórnunar og skipulags, sem ýtir undir sjálfbæra nýtingu auðlinda og verðmætasköpun.  Sjávarútvegsfræðin væri nú enn sem fyrr helsta áherslusvið og lífæð deildarinnar.  Lesa ávarp Þorsteins Gunnarssonar

Eftir ávarp háskólarektors tók Sjöfn Sigugísladóttir, forstjóri Rf til máls.  Í erindi hennar ræddi hún einkum hlutverk og stefnu Rf.  Í máli hennar kom fram að sem fyrr væri aðalmarkmið Rf það að auka verðmæti sjávarfangs og yrði það einkum gert með auknum rannsóknum og þróunarstarfi.  Sjöfn sagði að þær áherslur sem nú væru hvað mest áberandi í starfi Rf væri einkum á fjórum sviðum: kældum afurðum; líftækni og nýjum vinnsluaðferðum; fiskeldi og; öryggi og heilnæmi sjávarfangs.

Þá gerði Sjöfn einnig að umtalsefni fjármögnun rannsókna hér á landi og nefndi í því sambandi að Rf fengi um 4% af því fjármagni sem um væri að ræða í íslenskum samkeppnissjóðum, sem væri ekki ýkja hátt hlutfall miðað við mikilvægi atvinnugreinarinnar fyrir íslenskt þjóðarbú.  Skoða glærur úr fyrirlestri Sjafnar.

Að þessum ávörpum loknum tóku við erindi sérfræðinga frá Rf og HA, sem kynntu ýmis verkefni sem stofnanirnar hafa unnið að.  Verður þessum erindum gerð skil hér á síðunni innan tíðar.  Málþinginu lauk síðan með stuttum en skemmtilegum pallborðsumræðum.


Fréttir