Rf auglýsir eftir sérfræðingi á sviði reiknitækni

22.11.2004

Sérfræðingurinn verður í tvískiptri stöðu, annarsvegar sem sérfræðingur á Rf og hinsvegar sem lektor, dósent eða prófessor við Tækniháskóla Íslands (THÍ) eftir því sem dómnefnd metur og í samræmi við gildandi lög og reglur þar um. Starfssvið sérfræðingsins verður uppbygging rannsókna og kennslu á sviði reiknitækni við THÍ og úrlausn verkefna á því sviði við Rf.

Reiknitækni felur í sér notkun stærðfræðilegra aðferða og tölvutækni við gerð líkana af framleiðsluferlum, efna- og eðlisfræðilegum fyrirbrigðum og við lausn hagnýtra verkefna sem krefjast samþættingar tölvutækni og stærðfræði.

Umsækjendur skulu hafa meistara- eða doktorspróf í verkfræði, stærðfræði eða tölvunarfræði og hafa starfað á sviði sem tengist ofangreindu, s.s. aðgerðargreiningu, tölfræði, tölulegri greiningu, eða öðrum sviðum, auk þess að hafa góða þekkingu á tölvutækni. Umsækjendur skulu hafa tileinkað sér skipulögð og öguð vinnubrögð, hæfileika í mannlegum samskiptum og frumkvæði í starfi.

Um tímabundna ráðningu er að ræða til 1 árs, með möguleika á framlengingu. Viðkomandi þarf að geta hafið störf sem fyrst.

Umsóknum skal fylgja ferilskrá með meðmælendum auk ýtarlegrar skýrslu um námsferil, stjórnunarstörf og önnur störf sem tengjast fræðasviði umsækjenda. Launakjör eru samkvæmt kjarasamningum ríkisins og viðkomandi stéttarfélags.

Allar nánari upplýsingar veitir Dr. Bjarki A. Brynjarsson, deildarforseti tæknideildar Tækniháskóla Íslands í síma 577 1400 eða tölvupóstfang bjarki@thi.is.

Umsóknir skulu berast Tækniháskóla Íslands, Höfðabakka 9, 110 Reykjavík, í síðasta lagi 3. desember 2004. Farið verður með umsóknir sem trúnaðarmál og verður öllum umsækjendum svarað þegar ákvörðun hefur verið tekin um ráðningu.
Fréttir