• Steven Dillingham á Haustfundi Rf

Velheppnuðum Haustfundi Rf 2004 lokið.

15.11.2004

Um 70 manns sóttu haustfund Rf, sem haldinn var í Saltfisksetrinu í Grindavík 12. nóvember. Hér er hægt að nálgast flesta þá fyrirlestra sem fluttir voru á fundinum.

Það var ekki bara snjóspýja sem truflaði fyrirfram ákveðna dagskrá Haustfundarins að þessu sinni. Yfirvofandi setning laga í kennaradeilunni olli því að Sjávarútvegsráðherra varð að vera til staðar á Alþingi og komst því ekki til að opna fundinn, eins og til stóð. Ármann Kr. Ólafsson, aðstoðarmaður ráðherra, bar því fundargestum kveðjur frá ráðherra og flutti erindi fyrir hans hönd. Þar kom m.a. fram að stefnt er að sameiningu allra opinberra matvælarannsókna í eina stofnun sem heyra mun undir Sjávarútvegsráðuneytið. Þetta er niðurstaða starfshóps, sem falið var að rannsaka og gera tillögur um  samræmingu og sameiningu matvælarannsókna í einni stofnun sem muni skila hagræðingu í rekstri, betri rannsóknum og betri þjónustu við matvælaiðnað í landinu," sagði Ármann. Lesa erindi ráðherra.

Matvælarannsóknir, sem kostaðar eru af ríkinu, fara nú að mestu fram hjá fjórum stofnunum: Iðntæknistofnun (Matra), Rannsóknastofnun landbúnaðarins,  Umhverfisstofnun og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Ármann lagði áherslu á að eðli málsins samkvæmt væri Rf stærst, þar sem framleiðslan í sjávarútveg og fiskvinnslu, sem Rf þjónar einkum er langumfangsmest en atvinnugreinin færir í bú um 40% af útflutningstekjum þjóðarinnar.

Á eftir Ármanni rifjaði Björn Dagbjatsson, f.v. alþingismaður og forstjóri Rf á árunum 1974-84 upp fyrri tíma í matvælarannsóknum á Rf og kom þar víða við.    

Sjöfn Sigurgísladóttur, forstjóri Rf ræddi í erindi sínu um stöðu og hlutverk Rf í dag og þá framtíðarsýn sem hún sér fyrir hönd stofnunarinnar.  Þess ber að geta að erindi hennar var samið áður en starfshópurinn skilaði tilögum sínum.  En í máli Sjafnar kom m.a. fram að áherslur í rannsóknum á Rf beinast nú að miklu leyti að fjórum mismunandi sviðum: 
1) rannsóknir á kældum afurðum (ready-to-eat-meals), en það er sú tegund afurða sem er í hvað mestri sókn á helstu matvælamörkuðum um þessar mundir;  2) þá er síaukin áhersla lögð á rannsóknir á sviði líftækni og þróun nýrra vinnsluafurða úr sjávarfangi;  3) í þriðja lagi er áhersla í rannsóknum Rf á sviði fiskeldis og; 4)  ljóst er að áherslan á öryggi og heilnæmi matvæla mun aukast á næstu árum og nauðsynlegt verður fyrir Íslendinga að búa yfir gögnum sem geta sannfært stjórnvöld og neytendur í viðskiptalöndum okkar um að við séum að selja örugga og góða vöru.  Lesa erindi Sjafnar.

Future aspects in marketing of new seafood products var yfirskrift erindis sem Steve Dillingham, forstjóri bandaríska ráðgjafarfyrirtækisins Strategro International flutti.  Þar reifaði Dillingham ýmislegt sem gott væri að hafa í hug við útrás á markað eins og þann bandaríska, varaði við hættum og benti á hugsanleg tækifæri. Að mati Dillinghams er ein algengasta gryfja sem menn detta í sú að vera ekki búnir að athuga þörf markaðarins fyrir tiltekna vörutegund áður en eytt er stórfé í að koma vörunni á markað.  Ljóst er að vegna stærðar bandaríska markaðarins væru þar mörg tækifæri til sóknar, þannig kom fram í máli hans að á New York svæðinu einu saman væru á fjórða þúsund sushi matsölustaðir. Lesa erindi S. Dillinghams

Sigurjón Arason, sérfræðingur á vinnslu- og þróunarsviði Rannsóknarsviðs Rf, kynnti verkefni sem kallað hefur verið Vinnsluspá þorskafurða.  Í þessu viðamikla verkefni, sem unnið hefur verið í samstarfi við Háskóla Íslands og sjávarútvegs- og fiskvinnslufyrirtæki hér á landi, hefur verið safnað saman miklum upplýsingum um ástand þorsks af mismunandi veiðisvæðum, sem veiddur hefur verið á ólíkum árstímum og skoðað hvernig hann hentar til vinnslu í mismunandi afurðir hverju sinni.  Markmið rannsóknanna er að stuðla að aukinni hagkvæmni í veiðum og vinnslu á þorski hér á landi.  Lesa erindi Sigurjóns.

Øyvind LIE,  stjórnandi Matvælarannsóknastofnunarinnar í Noregi (Nasjonalt Institutt for Ernærings og Sjömatforskning) og prófessor við Háskólann í Bergen ræddi í erindi sínu um öryggi sjávarafurða og ýmsar rannsóknir sem gerðar hafa verið á því sviði á síðustu árum.  Øyvind LIE.  Lesa erindi.

Það kom síðan í hlut Helgu Gunnlaugsdóttur, deildarstjóra Umhverfis- og gæðasviðs Rannsóknarsviðs Rf að flytja síðasta erindi dagsins og fjallaði það um öryggi íslenskra sjávarafurða.  Í máli Helgu kom fram að Rf hefur á undanförnum misserum unnið að viðamiklum rannsóknum fyrir íslensk stjórnvöld og útflytjendur sjávarafurða, þar sem vísindaleg gögn eru notuð til að sýna fram á að sjávarafurðir héðan eru í flestum tilfellum langt undir öllum viðmiðunarmörkum um leyfileg aðskotaefni í fiski.  Slíkar upplýsingar eru að verða gulls ígildi í markaðssetningu matvæla á helstu matvælamörkuðum heims.  Erindi Helgu.

 
Fréttir