• Grindavík, Saltfisksetrið og höfnin

Haustfundur Rf 2004: Athyglisverðir fyrirlesarar frá Noregi og Bandaríkjunum.

10.11.2004

Á meðal fyrirlesara á haustfundi Rf í Grindavík á föstudag eru tveir erlendir fyrirlesarar, sem fullyrða má að akkur sé í að fá hingað til lands. Frá Noregi kemur Øyvind LIE, en hann kemur frá Matvælarannsóknastofnunini í Noregi (Nasjonalt Institutt for Ernærings og Sjömatforskning). Lie er jafnframt prófessor við Háskólann í Bergen.  Frá Bandaríkjunum kemur Steven Dillingham, stofnandi ráðgjafarfyrirtækisins Strategro International í New York.

Steven Dillingham er eigandi ráðgjafarfyrirtækisins Stratēgro International, sem sérhæfir sig í að veita fyrirtækjum markaðsráðgjöf. Steven Dillingham hefur sérþekkingu á markaðsrannsóknum og vöruþróun sjávarafurða og fiskeldi. Hann starfaði í mörg ár fyrir norska útflutningsráðið í New York, og aðstoðaði m.a. norsk fyrirtæki við markaðsetningu á sjávarafurðum á Bandaríkjamarkaði.

Fyrirlestur Steven Dillingham ber yfirskriftina: Future aspects in marketing of new seafood products.  Steven Dillingham mun fjalla um þróun matvælamarkaða í Bandaríkjunum og möguleika fyrir íslensk fyrirtæki að markaðsetja matvælaafurðir þar.  Hann mun fara yfir ný sóknarfæri í sölu sjávarafurða fyrir íslensk fyrirtæki og hvað Íslendingar geta lært af öðrum þjóðum s.s. Norðmönnum á þessu sviði.  

Heimasíða Strategro:  http://www.strategro.com/home.cfm

Hinn erlendi fyrirlesarinn á haustfundi Rf kemur frá Noregi.  Þetta er dr. Øyvind Lie, stjórnandi Matvælarannsóknastofnunarinnar í Noregi (Nasjonalt Institutt for Ernærings og Sjömatforskning) og jafnframt prófessor við Háskólann í Bergen.  Óhætt er að segja að hann sé einn af þungaviktarmönnum í matvælarannsóknum í Noregi, hann hefur setið í ótal nefndum og ráðum á vegum norskra fiskvinnslusamtaka, s.s. norsku síldarrannsóknarnefndina og tekið þátt í ýmsum verkefnum á vegum ESB.  Dr. Øyvind Lie hefur ritað fjölda vísindagreina og hefur verið einn af ritstjórum tímaritsins "Aquaculture Nutrition" frá árinu 1995, þar af aðalritsjóri þess á árunum 1999 - 2003. (Publisher: Blackwell Science, Oxford, UK).

Erindi dr. Øyvind Lie á haustfundi Rf ber yfirskriftina Safety of seafood og fjallar, eins og titillin ber með sér um öryggi sjávarfangs.  Þetta viðfangsefni verður sífellt fyrirferðameira í umræðu um framleiðslu og sölu sjávarfangs og matvæla almennt og er að verða eitt helsta markaðstækið nú til dags.  Øyvind Lie mun fjalla um helstu þætti er lúta að öryggi sjávarfangs og leggja áherslu á hvað og hvernig norðmenn vinna að því að auka öryggi og heilnæmi sjávarfangs.

 
Fréttir