Ný skýrsla frá Rf um gæðamat í þorskeldi
Sem fyrr segir hefur áframeldi á þorski tekist nokkuð vel hjá íslenskum útgerðarfyrirtækjum, þ.e. að því leyti að þorskurinn hefur vaxið vel á tímabilinu, jafnvel tvöfaldað þyngd sína, en los í fiskinum verðfellir hann og skapar erfiðleika í vinnslu. Þessi hraði vöxtur hefur því ekki enn skilað þorski í nægjanlega háum gæðaflokki.
Markmið verkefnisins Framtíðarþorskur var að finna árangursríkar vinnsluaðferðir og fóðurtækni fyrir áframeldisþorsk, þannig að framleiðslan verði hágæðaafurð með góða markaðsstöðu. Einnig var leitast við að koma á stýrðum vinnureglum og móta ákveðið gæðakerfi í slátrun og vinnslu á eldisþorski sem byggjast á niðurstöðum úr markvissri vísindalegri rannsókn verkefnisins.
Niðurstöður sýndu að holdgæði áframeldisþorsks eykst með lengd eldistíma. Gæðamat flaka var mun betra hjá áframeldisfiski sem var alinn í sjókvíum í 19 mánuði heldur en þeirra sem aldir voru í 7 mánuði, eins og algengast er. Þá kom í ljós að eldisþorskur er marktækt lægri í vatnsheldni en villtur þorskur, en vatnsheldnin jókst talsvert við það að minnka fóðrun í sjö vikur fyrir slátrun. Los í holdi tengist sýrustigi og magni fóðurs og þegar dregið er úr fóðrun hækkar sýrustigið og það dregur úr losi.
Skynmat á soðunum eldisþorski sýndi einnig marktækan mun, eldisþorskurinn reyndist stinnari, seigari og þurrari en villtur þorskur. Myndgreining gerð á vöðva eldisþorsks sýndi að mikill millifrumuvökvi er til staðar, sem hefur ekki sést í villtum þorski. Af niðurstöðum þeirra mælinga og tilrauna sem voru framkvæmdar er ljóst að eldisþorskur er frábrugðinn villtum þorski.