• Blóðgun og slæging

Mælingar sýna að mengun í fiski á Íslandsmiðum er langt undir viðmiðunarmörkum.

8.10.2004

Að beiðni Sjávarútvegsráðuneytisins hefur Rf tekið saman skýrslu um magn óæskilegra aðskotaefna í sjávarafurðum af Íslandsmiðum. Er skýrslan byggð á viðamiklum mælingum sem gerðar voru í fyrra og fram haldið á þessu ári. Tilgangurinn með þessum rannsóknum er að kanna ástand þessara mála hér við land og að hafa haldbær vísindaleg gögn til að geta svarað fullyrðingum um meinta hættu sem stafar af neyslu sjávarafurða, en slíkar upphrópanir gerast nú æ tíðari, t.d. í fjölmiðlum.

Hafið þekur um 70% af yfirborði jarðarinnar og þar er að finna um 97% af öllu því vatni sem fyrirfinnst á jörðinni. Verndun þess er því eitt mikilvægasta verkefni mannsins nú á dögum og ástand hafsins skiptir sköpum fyrir allt líf á jörðinni. Vatnið á jörðinni er í stöðugri hringrás, og má segja að frá hafinu komi allt vatn og allt vatn fari þangað. Þrátt fyrir góðan vilja er ekki hægt að afstýra þeirri mengun sem þegar hefur átt sér stað, en á 20. öldinni einni voru t.d. miljónir tonna af alls kyns eiturefnum losuð með einum eða öðrum hætti út í náttúruna. Mörg þessara efna voru framleidd og notuð í góðri trú til að bæta lífsskilyrði, t.d. í landbúnaði til að auka uppskeru, gegn skordýrum og þar með sjúkdómum eins og malaríu (DDT) í Afríku o.s.frv. Gallinn er hins vegar sá að oft var um efni að ræða, sem eyðast mjög hægt.

Búseta á norðlægum slóðum eins og á Íslandi, fjarri stórum mengunarvöldum, t.d. iðnaðar- og landbúnaðarhéruðum í norður og miðhluta Evrópu er því miður ekki trygging fyrir því að vera laus við áhrif mengunarinnar þaðan. Þvert á móti er stundum rætt um hnatteimingarlíkanið, sem á við um sum lífrænu efnana og er þá átt við það að efni berast út í loftið/hafið á notkunarstað, flytjast með loft- eða sjávarstraumum norður á bóginn og þéttast á köldum svæðum. Hraði niðurbrots er mældur í helmingunartíma, sem er sá tími sem það tekur að minnka magn/styrk efnisins um helming úti í náttúrunni þ.e. að eftir þann tíma er helmingur efnisins horfinn.

Mönnum hefur lengi verið ljóst að mengun af völdum ýmissa þrávirkra lífrænna efna er meðal alvarlegustu umhverfisvandamála jarðarinnar. Þrávirk lífræn efni er samheiti yfir hóp efnasambanda sem eru mjög stöðug bæði í náttúrunni og í lífverum ef þau berast í þær. Um er að ræða efni eins og DDT, HCH o. fl sem notuð hafa verið í landbúnaði, PCB o.fl. sem notuð eru í iðnaði og svo ýmsar aukaafurðir í iðnaðarferlum (HCB, díoxín).

Þessi þrávirku efni eru fituleysanleg, þ.e. þau safnast einkum fyrir í fituvefum og geta borist í lífverur með fæðu. Slík uppsöfnun í fæðukeðjunni nefnist líffræðileg mögnun.  Með líffræðilegri mögnun í vistkerfinu er átt við að magn efna eykst eftir því sem ofar dregur í fæðukeðjunni, þ.e. því ofar í fæðukeðjunni og þeim mun eldri sem lífveran er þeim mun meira hefur safnast fyrir af þessum efnum í fituvefum hennar. 

Rannsóknir hafa sýnt að mörg þrávirk efni geta valdið truflun taugaboða, skaðað ónæmiskerfi, valdið krabbameini  og minnkað frjósemi. Mannkynið er efst í fæðukeðjunni og rannsóknir sem gerðar hafa verið í nokkrum ríkjum Evrópu benda til þess að magn sæðisfruma í hverjum millilítra sæðis karlmanna fari þar minnkandi sem þýðir minnkandi frjósemi karla og er þetta m.a. rekið til mengunar.

Af öðrum efnum sem mæld hafa verið í sjávarfangi má nefna þungmálma eins og kadmín, kopar og sink, kvikasilfur, arsen og blý.  Almennt finnast þessi efni í mjög litlum mæli í sjávarfangi við Ísland.  Sum þessara efna eru nauðsynleg næringarefni, t.d. kopar og sink.

Íslendingar eiga mikið undir fiskveiðum og sölu sjávarafurða og eru auk þess á meðal mestu fiskneysluþjóða heims.  Við eigum því augljóslega mikilla efnahags- og heilsufarslegra hagsmuna að gæta hvað mengun lífríkisins í hafinu umhverfis landið varðar. Við getum því miður lítið að gert til að sporna gegn því að mengun berist hingað frá fjarlægum stöðum með loft- og hafstraumum, annað en að hvetja til þess á alþjóðavettvangi að þjóðir sameinist um að draga úr losun hættulegra efna eins og kostur er. 

En við getum og eigum að fylgjast vel með þessum efnum í lífríkinu í kringum okkur, og gera viðeigandi ráðstafanir ef vart verður við óæskilega þróun.  Íslendingar hafa lengi tekið þátt í slíkri vöktun, bæði í alþjóðlegu samstarfi og að eigin frumkvæði.  Við viljum geta treyst því að fiskurinn okkar sé hollur og öruggur til neyslu og við seljum öðrum hann í þeirri góðu trú.

Lesa skýrslu Rf.
Fréttir