Ársskýrsla Rf komin út
Út er komin ársskýrsla Rf og er þar að finna yfirlit yfir starfsemi Rf árið 2003. Árið var óvenju viðburðarríkt og má þar t.d. nefna áherslubreytingar í rekstri, umfangsmikla stefnumótunarvinnu, fjölbreytileg rannsóknarverkefni, fjölda vísindagreina sem birtust í erlendum vísindatímaritum og loks fjölmennar ráðstefnur sem voru haldnar á árinu.
Rekstur Rf var í jafnvægi á árinu 2003 og stofnunin rekin innan þess fjálagaramma sem henni var sett. Er það ánægjuleg þróun miðað við reksturinn mörg undanfarin ár, sem hefur verið nokkuð þungur.
Áherslubreytingar hafa orðið í rekstri Rf og þannig hefur rekstur þjónustusviðs, sem boðið hefur upp á ýmsar mælingar og prófanir fyrir sjávarútveginn og rekið er í samkeppnisumhverfi, dregist nokkuð saman, en meiri áhersla er lögð á rannsóknir í staðinn.
Ný stefna var mótuð á árinu 2003 sem miðar að því að auka verðmæti og öryggi sjávarfangs.
Mikil gróska var í ritun vísindagreina og birtust alls 15 slíkar í erlendum vísindaritum á árinu, þar sem sérfræðingar Rf eru ýmist aðal- eða meðhöfundar. Þá voru rúmlega 30 verkefnaskýrslur gefnar út og loks má geta margra erinda sem starfsfólk Rf flutti, sérstaklega á tveimur fjölmennum ráðstefnum sem Rf stóð fyrir á árinu, annars vegar TAFT 2003, alþjóðlegri ráðstefnu sem haldin var í júní og hins vegar Haustfundi Rf í nóvember.
Ársskýrsla Rf er fyrst og fremst aðgengileg í tölvutæku formi (pdf) á heimasíðunni. Ensk þýðing skýrslunnar mun verða tilbúin innan skamms og verður þá einnig aðgengileg á heimasíðunni.