• Prótein unnið á Skaganum

Prótein unnið úr bræðslufiski

28.5.2004

Á síðustu árum hafa rannsóknir á Rf í æ ríkari mæli verið á sviði líftækni og nýrrar vinnslutækni þar sem unnið er að þróun nýrra afurða úr sjávarfangi, ekki síst úr bræðslufiski, vannýttum tegundum og aukahráefni. Verkefnið Nýjar próteinafurðir úr síld er eitt slíkt verkefni.

Eitt markmiða SEAFOODplus verkefnisins, sem hófst í byrjun þessa árs, er að efla neyslu á sjávarafurðum sem leið til að efla heilsu manna almennt. En það er hægt að koma hollustunni til skila á fleiri máta en með hefðbundinni neyslu á fiski og/eða lýsi, nú er t.d. unnið að því að vinna prótein úr fiski sem hægt verður að nota sem fæðubótarefni í önnur matvæli, þannig að hinir einstöku eiginleikar fiskpróteina nýtist sem best.    

Prótein eru talsvert mikið notuð sem íblöndunarefni í matvælaiðnaði, einkum prótein sem unnin eru úr sojabaunum og mjólkurafurðum,  en prótein unnin úr fiski hafa ekki enn sem komið er hlotið sama sess.   Prótein er eitt aðal efni fiska og margir telja að fiskprótein séu heilnæmari heldur en önnur prótein í matvælum, vegna hagstæðrar samsetningar amínósýra í fiskpróteinum.

Á  Akranesi hefur Rf unnið að því síðan 2001 að þróa prótein úr síld og er sú vinna nú langt komin.  Verkefnisstjóri í verkefninu er Margrét Geirsdóttir og að hennar sögn hefur verkefnið gengið vel og er stefnt að því að því ljúki síðar á þessu ári.  Unnið hefur verið að verkefniu í húsakynnum HB á Akranesi, en fyrirtækið er eitt samstarfsaðila Rf í þessu verkefni.

Meira um verkefnið Prótein úr síld  


Fréttir