Man einhver eftir rekjanleika?
Fyrrgreind reglugerð á eftir að hafa veruleg áhrif í matvælaiðnaði og markaðssetningu matvæla á komandi árum. Í henni er m.a. lögbundið að framvegis skuli vera hægt að rekja hvaðan matvæli og íblöndunarefni í þau koma, kveðið á um rekjanleika vöru og innihaldsefna gegn um öll stig framleiðslu og dreifingar og að þessar upplýsingar verði aðgengilegar ef og þegar eftir þeim verði leitað.
Reglugerð ESB 178/2002 var sett í kjölfar þeirra hremminga sem plöguðu matvælaiðnað í Evrópu fyrir nokkrum árum, þ.e. kúariðu, díoxínhneykslisins í Belgíu, gin- og klaufaveiki o.fl. Í kjölfarið var Matvælaeftirlitsstofnun Evrópu, EFSA, einnig sett á laggirnar. En þótt þessar plágur séu að baki í bili er engin ástæða til að slaka á kröfum um öryggi í matvælaiðnaði, um það vitna fréttir síðustu missera og nægir þar að nefna fuglaflensu í Asíu og fréttir af eldislaxi í byrjun þessa árs. Þótt fréttir af eiturefnum í eldislaxi hafi sem betur fer reynst ýktar, gera sívaxandi heimsviðskipti með matvæli það nauðsynlegt að hægt sé að fullvissa yfirvöld og neytendur um öryggi þeirra, því það er oft á tíðum erfitt að greina uppruna hráefna. Ugglaust muna t.d. einhverjir eftir því þegar íslensk fyrirtæki fluttu inn "rússafisk" og seldu síðan sem íslenskar afurðir.
Rekjanleiki útheimtir vissulega að fyrirtæki fjárfesti í tækni til að uppfylla þau skilyrði sem gerð verða til þeirra í framtíðinni. En eins og Sveinn benti á í erindi sínu þá geta matvælafyrirtæki, með því að uppfylla kröfur um gæði, öryggi og rekjanleika, tryggt orðspor sitt og afurða sinna í framtíðinni.