• Beita

Rannsóknir skila nýrri, hagkvæmari beitu.

26.1.2004

“Þróun beitu til línuveiða” er heiti á athyglisverðu Evrópusambandsverkefni sem Rf hefur unnið að og er nú lokið. Meginmarkmið verkefnisins var að þróa beitu úr ódýru hráefni í stað þess að nota fisk sem hæfur er til manneldis sem beitu. Núna er verið að setja upp verksmiðju á Ísafirði og er búist við að framleiðsla á beitunni hefjist strax í febrúar.

Sérstakt fyrirtæki, Aðlöðun hf - Dímon Beitutækni, var stofnað í kringum þróunarvinnuna í verkefninu og er það búið að sækja um einkaleyfi á aðferðinni við beituframleiðsluna. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins er Sveinbjörn Jónsson.

Verkefnið var s.k. Craft verkefni, en svo nefnast sérstök verkefni á vegum ESB þar sem rannsóknastofnanir og háskólar taka þátt í þróunarvinnu ásamt fyrirtækjum, sem síðan öðlast einkarétt á að nýta sér niðurstöðurnar. Var verkefnið unnið í samvinnu við aðila á Spáni og í Portúgal.

Hráefnið í beituna er einkum unnið úr afskurði, úrgangi frá skelfiskvinnslum og tiltölulega ódýrum uppsjávarfiskum svo sem loðnu og kolmunna. Beitan er framleidd með því að raspa fryst hráefni, frystihakkið mótað í réttar beitustærðir sem síðan er pakkað í litla poka úr trefjaefni.

Nýja beitan hefur ýmsa ótvíræða kosti, fyrir utan að vera ódýrari en hefðbundin beita. Beitningin sjálf er mun fljótlegri og snyrtilegri en áður, beitan er alltaf tilbúin á krókinn og beitupokarnir frjósa ekki saman.  Þá virðast sjófuglar lítt sækja í beitupokana, en ásókn þeirra hefur lengi valdið vandræðum við línuveiðar.       

Þáttur Rf í verkefninu fólst einkum í því að rannsaka afskurð og úrgang sem til fellur úr fiskvinnslu og eins ýmsar uppsjávartegundir í þeim tilgangi að finna árangursríkasta hráefnið til beituframleiðslu.  Má t.d. nefna almenna efnagreiningu, fitusýrugreiningu, amínósýrugreiningu og greiningu á rokgjörnum efnum í þeim tilgangi að kortleggja efnainnihald  þess hráefnis sem hentar best til beitugerðar. Markmiðið var m.a. það að reyna með blöndun að líkja eftir efnainnihaldi smokkfisks og annarra vinsælla beitutegunda.

Nýlega kom út skýrsla í verkefninu “Artificial bait alternatives, mainly  based on fish waste,” og er hún eftir þær Soffíu Völu Tryggvadóttur,  Rósu Jónsdóttur og Guðrúnu Ólafsdóttur, en þær hafa allar unnið í verkefninu fyrir hönd Rf.  Skýrslan er lokuð til að byrja með en allar nánari upplýsingar um verkefnið veitir Soffía (530 8645) og soffia@rf.is


Fréttir