Rf heldur fleiri námskeið í Víetnam
Þær Birna og Guðrún heimsóttu Víetnam í apríl í fyrra ásamt þeim Sigurjóni Arasyni og Sveini V. Árnasyni frá Rf til að kynna sér aðstæður og funda með heimamönnum. Í kjölfarið var m.a. ákveðið að Rf myndi halda fimm námskeið og að þau yrðu haldin í borginni Nha Trang í suðurhluta Víetnam. Þeir Sigurjón Arason og Sveinn V. Árnason fóru þangað s.l. haust og héldu tvö fyrstu námskeiðin og í byrjun janúar var svo komið að þeim Birnu og Guðrúnu að ljúka þessum áfanga af samstarfi Rf og háskóla í Víetnam, sem felst einkum í að þróa kennsluefni sem tengist vinnslutækni og gæða- og öryggismálum matvæla.
Verkefnið er unnið á vegum DANIDA, sem er þróunarstofnun danska utanríkisráðuneytisins. Það er hluti af sérstöku átaksverkefni DANIDA í Víetnam er nefnist Seafood Export and Quality Improvement Project (SEAQIP) og miðar m.a. að því aðlaga gæðamál í fiskiðnaði þar að þeim stöðlum sem gilda í ESB.
Um viðamikið námsefni er að ræða og standa námskeiðin yfir í 2-4 daga, alls 12 daga og fluttir eru á milli 80-100 fyrirlestrar á þeim tíma. Nú verður námsefnið yfirfarið og lagfært í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hefur í Víetnam og síðan munu heimamenn taka alfarið við kennslunni.