• Vörur frá Villimey

Lífvirkni í vörum frá Villimey

1.9.2015

Fyrirtækið Villimey slf framleiðir lífrænt vottaðar vörur úr íslenskum jurtum sem vaxa í villtri náttúru Vestfjarða. Vörur Villimeyjar komu á markað í ágúst 2005 og hefur framleiðsla farið vaxandi undanfarin ár. Vörurnar hafa fengið góðar móttökur á Íslandi og þar sem þær hafa verið kynntar erlendis.

Villimey byggir starfsemi sína á nýtingu á auðlindum Vestur-Barðastrandasýslu sem eru hrein og ómenguð náttúra og jurtir sem vaxa villtar í náttúrunni. Aðalbjörg Þorsteinsdóttir, eigandi  og framkvæmdastjóri Villimeyjar nýtir þennan hreinleika náttúrunnar til að framleiða vörur úr jurtum og byggir framleiðsluna á aldagömlum uppskriftum sem hún hefur þróað í takt við nútímakröfur og þarfir. Vörur Villimeyjar eru orðnar þekktar hér á landi og njóta sífellt aukinna vinsælda.

Niðurstöður úr lífvirknirannsóknum á vörum frá Villimey

Undanfarna mánuði hafa jurtavörur sem framleiddar eru af Villimey á Tálknafirði verið rannsakaðar á rannsóknarstofu Matís á Sauðárkróki og í Reykjavík. Framleiðsla jurtasmyrslanna frá Villimey er eftir ströngustu kröfum varðandi hreinlæti og vönduð vinnubrögð. Engum rotvarnarefnum er bætt í smyrslin og þau standast þær kröfur sem gerðar eru almennt til slíkrar framleiðslu. Um er að ræða náttúruvörur sem hafa sína náttúrulegu virkni gegn bakteríum. Sýnt var fram á þessa virkni smyrslanna með svokölluðu ögrunarprófi eða „Preservative efficacy testing (challenge test)”, sem framkvæmt var á rannsóknastofu Matís. Við þessar prófanir var fylgt leiðbeiningum í Evrópsku Farmakópíunni (7. útgáfu frá 2011).

Frá rannsóknastofu Matís á Sauðárkróki Frá rannsóknastofu Matís á Sauðárkróki | From Matis lab in Saudarkrokur.

Húðvörur Villimeyjar hafa jafnframt verið prófuð í margskonar húðfrumuprófum þar sem hægt er að mæla virkni ýmissa efna í húðfrumum og finna þannig út áhrif þeirra á uppbyggingu húðfruma. Húðfrumuprófin mæla magn kollagens sem stuðlar að uppbyggingu húðfruma, elastasa sem orsakar hrörnun húðarinnar, málmpróteinasa 1  sem brýtur niður kollagen og málmpróteinasa 2 sem er nauðsynlegur við endurnýjun líkamsvefja.

Í þessum prófunum kom fram jákvæð virkni húðvaranna frá Villimey á þessi efni og þær ýmist hindra myndun þeirra svo sem elastasa og vinna þannig gegn hrörnun húðarinnar eða örva framleiðslu þeirra svo sem kollagens og stuðla þannig að endurnýjun húðarinnar. Einnig kom fram töluverð jákvæð svörun húðvaranna í prófum sem mæla hemjandi áhrif þeirra á bólgu í vöðvum og liðum.

Ennfremur kom í ljós virkni í húðvörunum við að græða skrámur í frumuþekju með svokölluðu „Scratch wound healing“ prófi (skrámugræðipróf) og reyndust græðandi áhrif þeirra í þessu prófi vera umtalsverð umfram ómeðhöndluð viðmið.

Einnig voru mæld andoxunaráhrif í vörum Villimeyjar, bæði húðvörum og jurtablönduðu eplaediki og reyndist andoxunarvirknin vera umtalsverð umfram ómeðhöndluð viðmið og má rekja þessa andoxunarvirkni til jurtanna sem notaðar eru í vörurnar. Einnig komu í ljós töluverð bólguhemjandi áhrif jurtablöndunnar í eplaedikinu.

Rannsóknir Matís á vörum Villimeyjar hafa verið styrktar af Rannsóknar- og Nýsköpunarsjóði V-Barðastrandasýslu og færa Villimey og Matís sjóðnum bestu þakkir fyrir mikilvægan stuðning.


Fréttir