• Logo Matís

Traust starfsemi með heilindi að leiðarljósi

30.7.2015

Matís er í forystuhlutverki sem eitt öflugasta rannsóknafyrirtæki landsins, það leiðir rannsókna- og samstarfsverkefni fyrirtækja og styrkir þannig innlenda þekkingu, treystir verðmætasköpun og stuðlar að bættum lífsskilyrðum. Heilindi skipta stjórnendur og starfsmenn miklu máli, hvort sem um er að ræða heilindi í vísindastarfi og rannsóknum eða heilindi þegar kemur að rekstri og fjárhagslegri stjórnun Matís.

Vöxtur hefur einkennt Matís frá upphafi. Þeirri stefnu hefur verið markvisst fylgt eftir að fyrirtækið sæki fram í alþjóðlegu samstarfi matvæla- og rannsóknarfyrirtækja, samhliða þeirri víðtæku þjónustu sem það veitir hér á landi. Hlutur erlendra tekna Matís er ríflega þriðjungur og hefur aldrei verið hærri. Auknar erlendar tekjur stuðla ekki aðeins að auknum vexti heldur verður rekstargrundvöllur Matís til framtíðar traustari með fleiri tekjuöflunarleiðum. Hingað til hefur Matís að stærstum hluta starfað í Evrópulöndum en á árinu 2014 voru stigin árangursrík skref inn á markað í Norður-Ameríku sem lofa góðu um það sem koma skal í náinni framtíð.

Ávinningur af starfsemi Matís fyrir íslenskt samfélag er ótvíræður. Fyrirtækið er í forystuhlutverki sem eitt öflugasta rannsóknafyrirtæki landsins, það leiðir rannsókna- og samstarfsverkefni fyrirtækja og styrkir þannig innlenda þekkingu, treystir verðmætasköpun og stuðlar að bættum lífsskilyrðum. Þrátt fyrir ungan aldur hefur fyrirtækið nú þegar sýnt fram á hversu miklum árangri rannsóknir skila samfélaginu í nýsköpun, vöruþróun, verðmætasköpun og betri nýtingu auðlinda, svo fátt eitt sé nefnt. Góðar rannsóknir hafa skilað sér beint í meiri verðmæti fyrir fyrirtæki og þjóðarbúið.

Matís rís ekki aðeins undir ábyrgðarmiklu hlutverki í rannsóknum og nýsköpun í matvælaframleiðslu hér á landi heldur hefur aukin áhersla verið lögð á þann þátt þjónustu fyrirtækisins sem snýr að matvælaöryggi; vöktun og mælingum á matvælum. Sú þjónusta er dýrmæt íslenskum neytendum og verður æ mikilvægari fyrir útflutning íslenskra matvælafyrirtækja eftir því sem kröfur erlendra kaupenda og neytenda aukast.

Matís nýtur faglegs sem rekstrarlegs trausts, sem best sést af fjölda erlendra þátttökuverkefna sem fyrirtækið á aðild að og það forystuhlutverk sem Matís hefur í mörgum þeirra. Fjöldi erlendra fyrirtækja nýtir sér einnig rannsóknaþjónustu Matís, sem einnig ber vitni því trausti sem það hefur skapað sér á undanförnum árum. Þessa trausts njóta einnig fyrirtæki og stofnanir hér á landi sem í mörgum tilfellum eru samstarfsaðilar Matís í erlendum verkefnum. Þannig má segja að ekki aðeins njóti Matís sjálft ávinnings af verkefnaþátttöku erlendis heldur opni einnig dyr erlendis fyrir aðra innlenda aðila.

Í eðli sínu er rekstur Matís ohf. á margan hátt ólíkur hefðbundnum hlutafélögum, en hjá Matís er  markmiðið að nýta þá fjármuni sem skapast í að byggja enn frekar upp starfsemina og auka verkefnaþátttöku. Hvað bestur mælikvarði á árangur fyrirtækisins er því ekki síst sú reynsla sem byggist upp innan fyrirtækisins, fagþekking, menntunarstig starfsmanna, fjöldi rannsóknaverkefna og árangur í þeim og aðrir mælanlegir þættir. Þeir mynda svokallaða þekkingarvísitölu sem aldrei hefur mælst hærri innan Matís en nú. Sú staðreynd er enn ein sönnun þess að stjórnendur og starfsmenn eru að skila vönduðu verki.

Allt skilar áðurnefnt starf á erlendum vettvangi öflugra rannsóknarfyrirtæki í íslensku samfélagi. Fagþekking og reynsla sem skapast í erlendum verkefnum nýtist í öðrum verkefnum sem Matís vinnur að hér á landi. Á þann hátt má segja að sannist hið gamla máltæki að hver vegur að heiman er vegurinn heim.


Fréttir