Sjávarútvegur: hamlandi vöxtur baktería með kítósan

24.4.2015

Nú er verkefninu „Meðferð við rót vandans“ lokið en markmið þess var að staðfesta notkunareiginleika kítósan meðhöndlunar á sjávarfangi til að auka gæði og geymsluþol. Kítósan er stórsameind sem unnin er úr kítíni sem er uppistöðuefnið í skeljum skordýra og skeldýra í sjó.

Fyrirtækið Primex ehf. vinnur kítósan úr rækjuskel á Siglufirði og vann að verkefninu ásamt Matís, Fjarðalaxi og Ramma

Notkunarmöguleikar kítósans eru miklir og hefur það mest verið notað sem fitubindiefni í meltingarvegi  og við þróun sárameðhöndlunarvara. Enn annar eiginleiki þess er hamlandi áhrif á vöxt baktería sem kemur að góðum notum til að viðhalda gæðum matvæla.  Það hentar einkar vel fyrir sjávarafurðir þar sem þær eru almennt viðkvæmar vörur með skamman geymslutíma þar sem skemmdarbakteríur dafna vel.

Í verkefninu var því þróuð aðferð til að meðhöndla sjávarfang með kítósani og mismunandi blöndur efnisins prófaðar.  Þrjár mismunandi sjávarafurðir voru valdar til prófunar; rækja, lax og þorskur.  Niðurstöðurnar sýndu að ákveðnar blöndur kítósans hægja á skemmdarferlinu, sérstaklega í heilum fiski.  Mikilvægt er að meðhöndlun sé framkvæmd strax eftir veiði eða slátrun til að hámarka virkni meðferðarinnar og að kjöraðstæður séu fyrir hendi við geymslu fiskafurða.

Aðstandendur verkefnisins vilja koma þökkum á framfæri til AVS fyrir stuðninginn.

Nánari upplýsingar veitir dr. Eyjólfur Reynisson hjá Matís.


Fréttir