Rannsóknir og vísindi eru framtíðargjaldmiðill sjávarútvegsins

17.4.2015

Sjávarútvegurinn, eins og aðrar atvinnugreinar, reiðir sig á rannsóknir og vöruþróun. Reynslan hefur sýnt að aukin verðmætasköpun í greininni byggir á hugviti og hafa íslensk fyrirtæki unnið metnaðarfullt og merkilegt starf á því sviði.

Þar hefur Matís iðulega verið í lykilhlutverki, verið eins konar þekkingarkjarni þegar kemur að beitingu vísinda í sjávarútvegi og brú á milli menntastofnana og atvinnulífs.

„Rannsóknir og vísindi eru framtíðargjaldmiðill sjávarútvegsins,“ segir Sveinn Margeirsson forstjóri Matís. Hann segir líklegt þekking og tækniframfarir, muni áfram leika lykilhlutverk í samkeppnisstöðu Íslands..

„Í raun stöndum við í dag með pálmann í höndunum því við erum nú þegar með mjög sterkan sjávarútveg og öflugan þekkingargrunn í greininni. Þetta er eitthvað sem margar aðrar þjóðir eiga enn eftir að byggja upp og eiga langt í land.“

Lögum samkvæmt er hlutverk Matís að auka verðmæti í matvælaiðnaði, bæta matvælaöryggi og efla lýðheilsu. Er Matís í ríkiseigu en rekið sem hlutafélag og hefur skýrt þjónustuhlutverk við sjávarútveginn og aðrar matvælagreinar en líka skyldur gagnvart eigandanum, þjóðinni.

Bendir Sveinn á að neytendur, bæði innanlands sem erlendis, verði æ kröfuharðari og betur að sér um eiginleika sjávarafurða. Með nýsköpun og rannsóknum takist sjávarútvegsfyrirtækjum að mæta  þessum miklu kröfum á hagkvæman hátt og skapa aukin verðmæti úr aflanum.

„Sú þróun sem átt hefur sér stað á sviði kælingar er gott dæmi um þetta. Í dag er um helmingur af ferskum flökum sem íslensk fyrirtæki flytja út til Evrópu fluttur með skipum í stað flugflutnings eingöngu líkt og staðan var fyrir um 15 árum, því bætt tækni hefur gert mögulegt að lengja geymsluþol vörunnar og bæta meðhöndlun fisksins í allri virðiskeðjunni. Útkoman er mun meiri útflutningur á ferskum flökum og flakabitum með ódýrum og umhverfisvænum hætti, en á sama tíma hafa flugflutningar jafnframt þróast og bjóða í dag upp á möguleika til að sinna allra kröfuhörðustu kaupendum. Útgerðarmenn, sjómenn og starfsfólk fiskvinnslu og flutningafyrirtækjanna hafa svo sannarlega horft til þarfa markaðarins og notað vísindin til að komast á næsta stig“

Sem annað dæmi um framfarir undanfarinna ára og áratuga nefnir Sveinn bætta nýtingu á aflanum. „Hér vinnur allt saman, sú tækni sem miðar að því að auka gæði hráefnisins fyrir hinn almenna neytanda skapar einnig betra hráefni fyrir hvers kyns hliðarafurðir. Framfarir í meðhöndlun og  vinnslu hafa orðið til þess að nýtingarhlutfall þorsks er farið að nálgast 80% og á sama tíma hefur hlutfall verðmætustu afurðanna farið upp.“

Sveinn segir ljóst að framboð á fiski mun aukast mjög á næstu árum, ekki síst á hvítfiski, og auka samkeppni á öllum markaðssvæðum. Hann nefnir sem dæmi Víetnam sem hefur lýst því yfir að fiskeldi muni tvöfaldast að umfangi á næstu fimm árum, og fiskurinn nær allur ætlaður til útflutnings. „Í markaðsumhverfi framtíðarinnar mun skipta sköpum hvernig tekst að byggja upp ímynd íslenskrar vöru og aðgreina hana frá öðru sjávarfangi s.s. í krafti gæða, hreinleika og matvælaöryggis. Greinin þarf að gera halda áfram sínu góða starfi, og geta unnið út frá réttum upplýsingum og nýjustu rannsóknum.“

Hreinleiki og gæði segir Sveinn, drifin áfram af rannsóknum og fjárfestingu í tækniframförum, segir Sveinn að geti orðið eitt sterkasta markaðstæki íslensks fisks. „Við sjáum það gerast að internetið er að breyta því hvernig sala á öllum vörum fer fram og það er fyrirsjáanlegt að nýir möguleikar skapist til að selja sjávarafurðir með beinum hætti til neytandans. Þar munu íslensk fyrirtæki hafa í höndunum öll gögn til að sýna fram á hversu góð varan er, og heilnæm,“ spáir hann. „Neytendur um allan heim leggja vaxandi áherslu á að borða heilnæm  matvæli, sem eru framleidd án neikvæðra áhrifa á umhverfið og samfélagið. Þetta eru neytendur sem eru mjög meðvitaðir um heilsufarsleg áhrif matvæla, vilja þekkja uppruna þeirra og eru reiðubúnir að greiða hátt verð fyrir næringarríka vöru sem gerir heilsunni gott. Á öllum þessum sviðum stendur íslenskt sjávarfang mjög vel að vígi en það verður að byggja okkar málflutning á heiðarleika og vísindalegum upplýsingum, ekki bara því sem okkur finnst eða langar til að segja.“

Viðtal þetta við Svein Margeirsson, forstjóra Matís, birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. mars sl.


Fréttir