Lífvirkar fjölsykrur úr sæbjúgum

3.11.2014

Varsha Ajaykumar Kale mun verja doktorsritgerð sína í lyfjavísindum mánudaginn 3. nóvember næstkomandi. Athöfnin fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl.13.00.

Ritgerðin ber heitið: „Lífvirkar súlfateraðar fjölsykrur úr sæbjúganu Cucumaria frondosa og ensím sem umbreyta slíkum lífefnum.-Bioactive sulfated polysaccharides from the sea cucumber Cucumaria frondosa and enzymes active on this class of biomolecules.“

Andmælendur eru dr. Ágústa Guðmundsdóttir, prófessor við Matvæla-og næringarfræðideild Háskóla Íslands, og dr. Maher Abou Hachem, lektor við Danmarks Tekniske Universitet (DTU).

Leiðbeinendur í verkefninu voru dr. Sesselja Ómarsdóttir, prófessor við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, dr. Guðmundur Óli Hreggviðsson, fagstjóri frá Matís og prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, og dr. Ólafur H. Friðjónsson, verkefnastjóri hjá Matís. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd dr. Elín Soffía Ólafsdóttir, prófessor við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, og dr. Jóna Freysdóttir, prófessor við sömu deild.

Dr. Már Másson, deildarforseti Lyfjafræðideildar Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni.

Ágrip

Í Asíu er löng hefð fyrir neyslu sæbjúgna og eru þau jafnframt notuð í alþýðulækningum. Margs konar lífvirkni sæbjúgnafjölsykra hefur verið lýst. Í þessu verkefni voru fjölsykrur einangraðar úr holdi sæbjúgans Cucumaria frondosa. Súlfateruðru fjölsykrurnar voru þáttaðar niður í þrjá þætti, FCF-1, FCF-2 og FCF-3. Þættirnir innihéldu allir mismunandi fjölsykrur bæði með tilliti til mólþunga og efnasamsetningu. Greining á sameindabyggingu súlfateruðu fjölsykrunnar í þætti FCF-3, sem var í mestu magni, sýndi fram á að um fúkósýlerað kondrótín súlfat (FuCS) er að ræða. Ónæmisstýrandi áhrif, andoxunaráhrif og áhrif á sykurkljúfandi meltingarensím fjölsykranna voru skimuð in vitro. Angafrumur sem voru þroskaðar í návist fjölsykrunnar FCF-1 seyttu marktækt minna af öllum mældum boðefnum. Samræktun angafrumna sem voru þroskaðar á návist FCF-1 og ósamgena CD4 jákvæðra T frumna leiddu í ljós að angafrumurnar ýttu undir sérhæfingu Th17 frumna með því að auka IL-17 seytun þeirra. In vitro rannsóknir leiddu í ljós að FCF-3  fjölsykran hafði nokkur andoxunaráhrif og sterk bæliáhrif á virkni α-glúkósídasa en minni bæliáhrif á virkni α-amýlasa í samanburði við akarbósa sykru sem notuð var sem jákvætt viðmið. Í bakteríum finnast fjölbreytilegir lífhvatar sem sundra og umbreyta fjölsykrum. Slíkar bakteríur voru einangraðar eftir in situ auðgun í fjöru og fjöruhver á æti sem innihélt kondrótínsúlfat úr hákarla- og sæbjúgnabrjóski. Erfðamengi nokkurra baktería, sem einangraðar voru eftir auðgun á kondroitinsúlfat æti, var raðgreint og gen fjölmargra sykurkljúfandi ensíma auðkennd. Þrjár gerðir ensíma voru framleiddar í E. coli með erfðatækni, þ.e. kondrótín lýsasi og súlfatasi úr Arthrobacter stofni og tveir α-L fúkósidasar úr bakteríunni Litorilinea aerolinea sem nýlega var lýst. Eiginleikar og virkni ensímanna á náttúrulegum hvarfefnum voru metin. Saman gátu fúkósidasinn, súlfatasinn og kondrótín lýasinn brotið niður fúkósýlerað kondrótínsúlfat úr sæbjúganu C. frondosa.       


Fréttir