Icelandic Agricultural Sciences

8.10.2014

Nú er 27. árgangur alþjóðlega vísindaritsins Icelandic Agricultural Sciences kominn út og allar greinarnar sem þar birtast eru einnig aðgengilegar á heimasíðu ritsins, www.ias.is.

Í heftinu er að finna níu greinar eftir valinkunna innlenda og erlenda fræðimenn sem fjalla um hin fjölbreytilegustu efni, auk ritstjórnargreinar. Fyrst ber að nefna yfirlitsgrein um ónæmisviðbrögð í þorski, en slík grunnþekking er afar mikilvæg ef takast á að þróa arðbært þorskeldi hérlendis. Í ritinu eru einnig merkilegar greinar um rannsóknir á kuldaaðlögun vetrarhveitis, mat á frumframleiðni íslensks graslendis með fjarkönnun, rannsókn á listeríusýkingu í hrossum, mælingar á eðlis- og efnaeiginleikum uppfoks og rykmengunar á Íslandi, erfðafræðileg greining á sögu og stofngerð íslenska hestsins, jarðvegsrannsóknir á afdrifum áborins fosfórs í túnum hérlendis, frjókornarannsóknir til að skýra gróðurfarssögu birkis og blöndun þess við fjalldrapa frá Ísaldarlokum hérlendis og að lokum rannsókn á rótarvexti íslenska birkisins.

Ritstjórn IAS vill vekja athygli ykkar á ritinu og hvetur starfsfólk útgáfustofnana og aðra fræðimenn og konur til að kynna sér þessar nýju greinar.

Nánar um útgáfu IAS

Í ár bárust ritinu alls 55 handrit til birtingar. Fjöldi innsendra handrita, sem einkum berast frá Asíu, falla ekki að landfræðilegu áherslusviði ritsins (norðlæg eða önnur svöl svæði) og er því hafnað strax. Í ár voru það alls 39 handrit. Hin 16 handritin voru send í faglega ritrýni og á því stigi féllu 5 handrit út og má segja að það sé mjög hátt hlutfall (31%), en sýnir að hin faglega ritrýni er vel unnin. Tvö handrit sem bárust á þessu ári hafa nú verið ritrýnd og ná væntanlega að birtast í næsta hefti.

IAS er í opnum aðgangi (open access) og kemur út einu sinni á ári og er einungis með ritrýndar vísindagreinar á ensku. Það er í hópi fyrsta flokks vísindarita (ISI) og sem slíkt fékk það núna þriðja árið í röð mat frá Tomson Reuters Web of Knowlgede. Fyrstu tvö árin var matsstuðullinn (ISI Impact Factor) 0,562 og 1,750, sem er mjög góður árangur, en hann féll í 0,071 á þessu ári. Þennan mikla breytileika má skýra með því að ISI matsstuðullinn byggir bara á tilvitnun í greinar síðustu tveggja ára og þar sem við gefum einungis út mjög fáar greinar á hverju ári getur matsstuðullinn fallið í mjög lága tölu ef lítið er vitnað í greinar eins árs. Ritið kemur jafnframt út frekar seint á árinu og það dregur einnig úr líkum á háum matsstuðli og eykur breytileikann, þar sem stuðullinn byggir þá nær eingöngu á einu ári. Ritstjórn vill því gjarnan færa útgáfuna fram til að draga úr þessum sveiflum.

Ritstjórn hefur nú gengið frá samningi um að allar greinar sem birtast hér eftir í IAS munu hafa svokallað doi-númer, en slík rafræn tilvísunarnúmer eru að verða krafa fyrir öll fyrsta flokks vísindarit.

Heftið í ár eru samtals 125 blaðsíður og í því eru nokkrar greinar sem eru mun lengri en sett viðmið. Við það eykst kostnaður umtalsvert fyrir útgefendur. Til að stemma stigu við þessari þróun hefur ritstjórn nú ákveðið að setja 12 bls hámarkslengd á almennar greinar sem höfundar geta fengið birtar sér að kostnaðarlausu, en taka 250 € (um 40.000 ISK) gjald fyrir hverja blaðsíðu umfram þá lengd. Þetta gjald samsvarar tæplega raunkostnaði við útgáfu hverrar blaðsíðu í ritinu.

Nánar má sjá um þetta í leiðbeiningum til höfunda (e. Instructions to Authors) á heimasíðu ritsins (www.ias.is).

Við tökum við handritum að greinum í ritið árið um kring og birtum þær á netinu jafnskjótt og þær eru tilbúnar til birtingar. Þar sem nokkur handrit eru nú þegar í vinnslu má gera ráð fyrir að fyrstu greinar í hefti 28/2015 birtist á netinu í byrjun næsta árs.

Ritið er fáanlegt hjá: Margréti Jónsdóttur, LbhÍ, Keldnaholti, 112 Reykjavík (margretj@lbhi.is).

Útgefendur ritsins

 • Bændasamtök Íslands
 • Háskólinn á Hólum
 • Landbúnaðarháskóli Íslands
 • Landgræðsla ríkisins
 • Matís
 • Rannsóknarstöð skógræktar, Mógilsá
 • Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði, Keldum
 • Veiðimálastofnun

Ritstjórn IAS

 • Þorsteinn Guðmundsson (aðalritstjóri)
 • Bjarni Diðrik Sigurðsson
 • Sigurður Ingvarsson

Ritnefnd IAS

 • Bjarni Kristófer Kristjánsson
 • Edda Oddsdóttir
 • Guðmundur Halldórsson
 • Helga Gunnlaugsdóttir
 • Jón Ólafsson
 • Ólöf Sigurðardóttir
 • Ægir Þór Þórsson

Fréttir