Hægt er að auka verðmæti karfaflaka með bættum vinnsluaðferðum

3.10.2014

Reynsla síðasta ártugar sýnir að þekking er eitt verðmætasta verkfærið sem íslenskur sjávarútvegur hefur til umráða til að auka nýtingu og verðmæti sjávarafurða. Farsælt samstarf rannsóknaraðila og sjávarútvegsfyrirtækja hefur skilað sér í umtalsverði verðmætaaukningu og bættum gæðum íslensks sjávarfangs.

Sérfræðingar Matís hafa í nánu samstarfi við fyrirtæki unnið að því efla þekkingu á íslensku sjávarfangi með það að leiðarljósi að auka verðmætasköpun í sjávarútvegi. HB Grandi er eitt þeirra fjölda fyrirtækja sem Matís hefur átt farsælt samstarf með. Reynsla og þekking í nýtingu auðlindar og framleiðslu sjávarafurða endurspeglast í starfi HB Granda þar sem lögð er rík áhersla á háþróaða tækni við veiðar og vinnslu og stöðuga framþróun framleiðslunnar. „Kæling karfa í vinnslu og flutningi“ er eitt af þeim rannsóknarverkefnum sem Matís og HB Grandi hafa unnið að. Markmið þessa verkefnis var að setja fram endurbætur á verklagi og meðhöndlun í vinnslu- og flutningsferlum karfa til að tryggja framleiðslu öruggrar hágæðavöru.

Rannsóknir á karfa hafa hingað til verið að skornum skammti hvað varðar vinnslueiginleika, gæði og nýtingu. Ekki er hægt að yfirfæra fengna vitneskju um vinnslumöguleika t.d. þorsks beint yfir á karfann vegna mismunar í efnasamsetningu vöðva, stærðar fisks, lifnaðarhátta og fleiri þátta. Vegna þessa mismunar er mikilvægt að greina og bæta veikustu hlekkina í virðiskeðju karfans á leið sinni frá veiðum gegnum vinnslu og til neytanda.


Með loftskiptum umbúðum er átt við að samsetningu
loftsins er breytt m.v. venjulegt andrúmsloft. Með þessu
móti má minnka og breyta þeirri örveruflóru sem þrífst
í fiskinum auk þess sem heft aðgengi súrefnis leiðir til
hægari þránun fitu.

Útflutningur á ferskum karfaflökum hefur nær eingöngu farið fram með flugi þar sem ekki hefur tekist að tryggja  nægilega langt geymsluþol til að nýta aðrar flutningaleiðir eins og skipaflutning. Lengra geymsluþol má m.a. öðlast með bættri meðhöndlun um borð, bættri kælingu um borð og við vinnslu, ofurkælingu við geymslu og notkun á loftskiptum pakkningum. Með auknum rannsóknum á geymsluþoli og meðhöndlun við framleiðslu ferskra karfaflaka, sem gefur hvað hæst verð á mörkuðum, má auka það magn sem flutt er út af ferskum flökum og þannig auka verðmæti karfaframleiðslu. Rannsóknir sýna að lengja megi geymsluþol á ferskum fiski með loftskiptum geymsluaðstæðum og góðri hitastýringu við geymslu og flutning ferskra fiskafurða.

Í samstarfsverkefni Matís og HB Granda var þessi leið til lengingar á geymsluþoli ferskra karfaafurða einstaklega áhugaverð. Í því ljósi voru rannsakaðar margar útfærslur á geymsluaðstæðum í samhengi við aðra áhrifaþætti við vinnslu á karfa. Auk mikilvægi stöðugrar kælingar þá gáfu niðurstöðurnar til kynna að hægt er að ná allt að 3 daga lengra geymsluþoli með loftskiptum umbúðum. Með 2-3 daga aukningu á geymsluþoli eykst afurðaverðið beint, þar sem erlendir kaupendur geta þá haft vöruna í lengur í sölu og eru þar af leiðandi tilbúnir að greiða hærra afurðaverð.

Þetta verkefni hefur gefið okkur aukna þekkingu á vinnsluáhrifum og annarrar meðhöndlunar karfa í gegnum alla virðiskeðjuna á lokagæði sem mun stuðla að auknu verðmæti íslenskra karfaafurða. Þekkingin sem hefur skapast í þessu verkefni mun auk þess styðja undir frekari rannsóknir og stuðla að bættum gæðum fiskafurða.

Nánari upplýsingar veitir Magnea G. Karlsdóttir hjá Matís.


Fréttir