• Þorskur | Cod

Nýting Íslendinga á þorski vekur athygli hjá FAO

19.9.2014

Í nýútkomnu riti FAO (Matvæla-og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna) sem ber heitið The State of World Fisheries and Aquaculture (SOFIA) er staðfest að Íslendingar séu ein af helstu fiskveiði þjóðum heims.

Ritið birtir lista yfir þær 18 þjóðir sem veiddu mest af fiski árið 2012. Efst á listanum er Kína með 13.869.604 tonn veidd. Næst kemur Indónesía með 5.420.247 tonn og í þriðja sæti eru Bandaríkin með 5.107.559 tonn. Ísland er í 17. sæti á listanum með samtals 1.449.452 tonn af fiski. Aðeins eitt annað Evrópuland kemst á listann en það er Noregur, sem vermir 11. sætið með 2.149.802 tonn veidd árið 2012.

Íslendingar eru leiðandi í nýsköpun

Í ritinu er kastljósinu einnig beint að mikilvægi rekjanleika fisks með það að markmiði að stuðla að fæðuöryggi og koma í veg fyrir svindl með matvæli. Þar eru rannsóknir Íslendinga sem Matís hefur komið að, nefnt sem dæmi um árangursrík verkefni af þessu tagi. Þá er talið að ekki sé hægt að rekja uppruna fisks á Evrópumarkiði í 25 – 50% tilfella.

Fullnýting Íslendinga á þorski er einnig umfjöllunarefni í ritinu, þar sem fjallað er um möguleikana á að nýta aukaafurðir fisks til manneldis. Fram kemur að Íslendingar hafi flutt út 11.540 tonn af þurrkuðum þorskhausum til Afríku árið 2011. Greint er frá því að auk hausa séu hrognin og lifrin nýtt til manneldis en afgangurinn fari mestmegins í fóður.

Ritið sem hér um ræðir er viðamesta útgáfa FAO og kemur út á tveggja ára fresti. Markmiðið með útgáfunni er að veita stefnumarkandi og opinberum aðilum auk þeirra sem þurfa að treysta á fiskiðnaðinn alhliða og hlutlausar upplýsingar um stöðu mála á heimsvísu og gefa hugmyndir um hvernig megi bregðast við þeim áskorunum sem fyrir eru. Hér má lesa nýjustu útgáfuna af SOFIA.

Nánari upplýsingar veitir Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur hjá Matís.


Fréttir