Ráðstefna um sjávarbyggðir, smábátaveiðar og byggðaþróun við N-Atlantshaf

15.9.2014

Í tengslum við Íslensku sjávarútvegssýninguna sem fram fer í Kópavogi í lok september  verður blásið til alþjóðlegrar ráðstefnu þar sem ræða á stöðu sjávarbyggða, smábátaveiða og byggðarþróun við N-Atlantshaf.

Samfélög í sjávarbyggðum og smábátaútgerð tengjast sterkum böndum í þeim löndum sem liggja að N-Atlantshafi. Víðast hvar á svæðinu eiga sjávarbyggðir undir högg að sækja og smábátaútgerðir eiga í rekstrarvanda, ásamt því sem endurnýjun í greininni er takmörkuð. Þessar áskoranir, ásamt fleiri viðfangsefnum, verða rædd á ráðstefnunni og leitast við að greina framtíðarmöguleika sjávarbyggða við N-Atlantshaf.

Ráðstefnan er þannig uppbyggð að fyrst munu fulltrúar frá Íslandi, Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Færeyjum, Grænlandi og Nýfundnalandi flytja stutta fyrirlestra um stöðu þessara mála í þeirra löndum. Þá verður kynnt rannsóknarverkefni þar sem afkoma og laun smábátaútgerða í Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Íslandi er greind og borið saman við aðrar atvinnugreinar. Þá munu íslenskir eigendur smábátaútgerðar í Noregi greina frá rekstrarumhverfi smábáta í Noregi, og bera það saman við Ísland; og loks mun stjórnarformaður Byggðarstofnunar greina frá starfi og stefnu stofnunarinnar, en Byggðastofnun hefur nýlega tekið til endurskoðunar aðferðafræði stofnunarinnar til að sinna sínu hlutverki betur.

Ráðstefnan fer fram í Smáranum (fundarsalur á efri hæð byggingar sem tengir Smárann og Fífuna) laugardaginn 27. September kl 10:15-14:00.  Ráðstefnan fer fram á ensku, aðgangur er gjaldfrjáls og opinn öllum, en fólk er þó beðið um að skrá sig með því að senda póst á jonas@matis.is.

Dagskrá ráðstefnunnar má nálgast hér. Nánari upplýsingar er að finna á www.coastalfisheries.net eða hjá Jónasi R. Viðarssyni hjá Matís.


Fréttir