Útgerð frystitogara á krossgötum

14.7.2014

Mikil breyting hefur orðið á útgerð frystitogara á Íslandi síðan hún hófst í byrjun níunda áratug síðustu aldar. Hlutdeild frystitogara í þorski hefur dregist saman umtalsvert og er hann í dag eingöngu veiddur sem meðafli við sókn í aðrar tegundir eins og karfa, ufsa og grálúðu. Árið 1992 voru frystitogarar flestir í Íslenska flotanum, 35 talsins en í dag eru þeir 23 og fer fækkandi.

Ástæður fyrir minnkandi hlutdeild frystiskipa í þorskveiðum má rekja til hækkunar á olíuverði, háum launakostnaði miðað við landvinnslu og breytinga á fiskmörkuðum, þar sem aukin eftirspurn hefur verið á ferskum flakastykkjum og aukahráefni. Óvissa í umhverfi sjávarútvegs og hækkun veiðigjalda hafa hins vegar komið í veg fyrir nauðsynlega fjárfestingu, sem er forsenda þróunar á búnaði og afurðum frystiskipa. Skipin eru komin til ára sinna og orðið tímabært að endurnýja flotann, ef  hann á að standast samkeppni við framleiðslu afurða á markaði sem greiða hærra afurðaverð og stenst samkeppni við vinnslu bolfisks í landi. 

Álagning veiðigjalda hefur valdið óvissu og dregið úr hagkvæmni frystitogara sem hefur komið í veg fyrir fjárfestingu í greininni ásamt hlutaskipakerfi sem ekki hvetur til fjárfestinga í tækni eða vöruþróun. Frystitogarar eru Íslendingum mikilvægir, og þó hlutdeild þeirra í þorski og ýsu hafi farið minnkandi þá þarf áfram að vera hagkvæmt að veiða aðrar tegundir með vinnsluskipum. Tegundir eins og karfi og grálúða henta vel fyrir vinnslu sem þessa, eins verða fjarlæg mið varla sótt nema með frystitogurum. 

Matís hefur nýlega gefið út skýrslu sem rituð er í kjölfar greiningarvinnu til að draga fram mynd af hinum ýmsu þáttum sem vega þyngst í rekstri frystitogara á Íslandi. Skýrslunni er ætlað að styðja við ákvörðunartöku hvað varðar fjárfestingu í sjávarútvegi til framtíðar og skýra hvaða þættir í rekstri frystitogara vega þyngst. Skýrslan getur nýst í umræðum um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu og hægt verður að styðjast við niðurstöður verkefnisins til að meta áhrif breytinga mismunandi þátta. Skýrslan einskorðast ekki við frystitogara og getur nýst við heildstæða stefnumótun í sjávarútvegi, og niðurstöðurnar nýtast jafnt útgerðarmönnum og stjórnmálamönnum við ákvarðanatöku. Helstu þættir sem skipta sköpum í þessu samhengi varða aflaverðmæti, laun sjómanna og veiðigjald. Þau gögn sem aflað var í verkefninu hafa nýst við nýlega ákvarðanatöku um breytingar í útgerðarmynstri íslenskra útgerða. Um er að ræða lokaskýrslu verkefnisins „Fjárfestingastjórnun í frystitogararekstri“ sem unnin var í samstarfi við HB Granda með stuðningi frá AVS rannsóknasjóði í sjávarútvegi með styrk S 007-12.


Fréttir