Starfsmaður Matís kapteinn á kafbáti

4.7.2014

Í dag föstudag og á morgun laugardag munu starfsmenn Matís nota fjarstýrða kafbáta til að safna sýnum úr svömpum og ígulkerum í Breiðfirði. Markmiðið er að rannsaka hvort hægt sé að vinna nýjar tegundir lyfja úr svömpum og ígulkerum.

Svampar eru þekktir fyrir að verja sig með efnahernaði og því miðast rannsóknirnar nú að því að athuga hvort nýta megi þennan eiginleika til þess að framleiða lyf. Þegar hafa verið greindar 7000 lífvirkar sameindir í svömpum.

Áhugi vísindamanna á lífvirkum efnum sjávar er sífellt að aukast á sama tíma og tæknin gerir mönnum kleift að rannsaka náttúruna með enn meiri nákvæmni en áður.

Ein helsta áskorunin verður að sögn Ragnars Jóhannssonar hjá Matís, sem leiðir verkefnið, að finna leiðir til að einangra nógu mikið magn lífvirkra efna til að nota í framleiðslu.

Sýnatakan úr svömpunum er hluti af tveimur verkefnum sem bera heitið Bluepharmtrain og BlueGenics. Sýnatakan úr ígulkerunum er hluti af verkefninu ResUrch. Verkefnin fá styrk frá Marie Curie áætlun ESB og frá 7. Rammaáætlun Evrópu (FP7). Samtals nema styrkirnir rúmlega 80 milljónum króna.

Nánari upplýsingar veitir Ragnar Jóhannsson.


Fréttir