Kæligeta og bræðslumark ísmotta og gelmotta eru sambærileg

2.6.2014

Íslenskir ferskfiskútflytjendur notast gjarna við kælimottur til að viðhalda lágu hitastigi ferskfiskafurða í flutningi, einkum flugflutningi. Kælimotturnar innihalda venjulega annað hvort ís eða þá einhvers konar gel, sem nauðsynlega inniheldur þannig efni að það megi komast í snertingu við fiskinn ef mottan rofnar, þ.e. innihald mottunnar er „food-grade“.

Á erlendum mörkuðum er úrval umræddra kælimotta allvítt en hér á landi eru stærstu söluaðilar kælimotta fyrir ferskan fisk Promens Tempra í Hafnarfirði og Ísgel á Blönduósi. Tempra framleiðir ísmottur, sem einungis innihalda vatn og Ísgel framleiðir gelmottur og hefur því verið haldið fram að mikill munur geti verið á kæligetu umræddra kælimotta. Til að athuga það rannsökuðu verkfræðinemarnir Hilmar Arnarson og Sandra Björg Helgadóttir nýlega bæði bræðslumark og kæligetu ísmotta frá Tempru og gelmotta frá Ísgel í námskeiðinu Fiskiðnaðartækni 2 við Háskóla Íslands.

Í tilrauninni komu þau fyrir hitasíritum innan í kælimottum, sem pakkað var í frauðplastkassa. Kössunum var komið fyrir í frysti í nokkra daga áður en þeir stóðu við stofuhita uns kælimotturnar voru að fullu þiðnaðar. Hitamælingarnar leiddu ekki í ljós marktækan mun á hvorki bræðslumarki ís- og kælimottanna (hann var u.þ.b. 0,0 +/- 0,3 °C) né kæligetu (hæfileika kælimottanna til að viðhalda lágu hitastigi matvöru), sjá mynd 1.

Nánari upplýsingar veitir Sigurjón Arason, prófessor við Háskóla Íslands og yfirverkfræðingur Matís.

Mynd 1. Hitastig innan í ísmottum frá Promens Tempra og gelmottum frá Ísgel á meðan þíðingu stendur.


Fréttir