• Fiskeldi | Aquaculture

Klárast fiskurinn? Hvernig skal bregðast við?

13.2.2014

Vitað er, að ætli Íslendingar að höndla með líkt hlutfall alins fiskmetis og við höfum aflað, má reikna með að tvöhundruðfalda þurfi eldisframleiðslu hér við land. Búist er við aukinni eftirspurn á heimsvísu eftir lagarafurðum, matvælum sem eiga uppruna ýmist í fersku vatni eða söltum sjó. Hin aukna eftirspurn mun knýja á um aukna framleiðslu, nýjar lausnir og betri nýtingu.

Rannsóknir á umhverfisáhrifum í virðiskeðjum matvæla eru og verða mikilvægar í framtíðinni því með sífellt vaxandi mannfjölda, álagi á auðlindir jarðarinnar ásamt vaxandi umhverfisáhrifum er þörf á róttækum breytingum og nýjum nálgunum í framleiðsluaðferðum.

Birgir Örn Smárason hjá Matís hefur hafið doktorsnám við Háskóla Íslands á sviði umhverfis- og auðlindafræða. Starfsaðstaða Birgis er í starfsstöð Matís á Akureyri á Borgum við Norðurslóð, hvar áhersla er lögð á sjálfbæra nýtingu auðlinda norðurslóða. Doktorsnám Birgis er í anda nýlegs rammasamnings Matís og Háskólans á Akureyri þá einkum um að samþætta rannsókna- og þróunarverkefni á sviði sjálfbærrar auðlindanýtingar.

Í doktorsnáminu er lagt upp með að greina möguleika á notkun nýrra hráefna í fiskafóður úr annarskonar lífefnum en hefbundin notkun miðast við. Því verður umhverfisálag virðiskeðja fiskveiða og fiskeldis skoðað með vistferilsgreiningu m.t.t. auðlindanotkunar í samanburði við aðra matvælaframleiðslu. Greining þessara virðiskeðja, verður tvíþætt því með nýjum hugmyndum og lausnum í nýtingu auðlinda er nauðsynlegt að hafa mælanlegan samanburð til að meta áhrif af breytingum í virðiskeðjunum. Þá verður greind þróun og möguleikar lífefna í fóður út frá nýtingu auðlinda, samsetningu fóðurs og líf- og næringafræði, ásamt því að þróa nýjar fóðurtegundir.

Eitt af lykilatriðunum í hagsæld til framtíðar litið eru rannsóknir og þróun í lífhagkerfinu (e. Bioeconomy). Lífhagkerfið vísar til þess að notkun takmarkaðra auðlinda, eða óendurnýjanlegra auðlinda er lágmörkuð eða skipt út með notkun endurnýjanlegra auðlinda, sjálfbærra lifnaðarhátta og framleiðslu þar sem efni og orka eru endurnýjuð eins hratt og við notum þau. Styrkingu hnattræns lífhagkerfis fylgja jákvæðar afleiðingar, s.s. hagvöxtur og fjölgun starfa í dreifbýli, minni notkun og eftirspurn á jarðefnaeldsneyti, bætt fæðuöryggi og bætt efnahagsleg og umhverfisleg sjálbærni frum-framleiðslu og framleiðslufyrirtækja ásamt því að tryggja betur áframhaldandi tilvist umhverfisins.

Nánari upplýsingar veitir Arnljótur Bjarki Bergsson, sviðsstjóri Auðlinda og afurða hjá Matís.


Fréttir