• Þekkir þú matinn þinn? | Do you know your food?

Var klóakmengunin sem birtist í áramótaskaupinu bara grín eftir allt saman?

13.1.2014

Í góðu orðspori felast mikil verðmæti og tækifæri til frekari verðmætasköpunar. Til að hægt sé að auka enn verðmætasköpun í virðiskeðju íslenskra matvæla er grundvallaratriði að hægt sé að sýna fram á öryggi framleiðslunnar, með hliðsjón af lögum, reglugerðum og kröfum markaða. 

Í kjölfar ýmissa uppákoma (food scandals/outbreaks) sl. ár hefur mikilvægi matvælaöryggis við markaðssetningu matvæla enn aukist og er í dag lykilatriði til að tryggja útflutningstekjur. Ýmis dæmi eru um að neikvæð umfjöllun í fjölmiðlum og á internetinu hafi á stuttum tíma eyðilagt jákvæða ímynd matvælaframleiðslu sem tekið hefur áratugi að byggja upp. Stuttur viðbragðstími er lykilatriði við uppákomur sem ógna matvælaöryggi.

Til að hægt sé að verja íslenska viðskiptahagsmuni í þessu samhengi er nauðsynlegt að á landinu sé til staðar nauðsynleg sérfræðiþekking og aðstaða til rannsókna hér á landi. Einnig er lykilatriði að til staðar séu aðgengileg gögn um stöðu íslenskra matvæla með tilliti til öryggis, heilnæmis og rekjanleika. Án þessa eru verulegar líkur á að aðgerðir verði ómarkvissar, útflutningshagsmunir skaðist og almenningur og viðskiptavinir okkar erlendis missi tiltrú á að stjórnvöld og fyrirtæki séu fær um tryggja öryggi íslenskrar matvælaframleiðslu.

En hvaða máli skiptir þetta fyrir okkur Íslendinga? Til dæmis fyrir stærstu útflutningsgrein okkar; íslenskan sjávarútveg?  Eru ekki hlutirnir í fínasta lagi hjá okkur?  Góðu heilli hafa vandamál sem tengja má beint við íslenskan sjávarútveg verið fátíð hin seinni ár.  Ef horft er til sögunnar eru dæmin hinsvegar fjölmörg.  Áhersla á gæðastjórnun, kælingu afla og gott rannsókna -og vöktunarstarf sem hefur t.d. leitt í ljós að magn þungmálma í sjávarfangi við Íslandsstrendur er hverfandi í flestum tilfellum er meðal þess sem hefur orðið til þess að byggja upp gott orðspor íslensks sjávarfangs.  En ef við horfum til framtíðar – og í raun nútíðar – er ljóst að við þurfum að vera vakandi fyrir orðsporsáhættu.

Síðastliðin ár hafa frárennslismál verið nokkuð til umræðu í fjölmiðlum og fékk eitt slíkt mál ríkulega umfjöllun í nýafstöðnu áramótaskaupi ríkissjónvarpsins. Í dag er lítill hluti skólps hreinsaður, en nokkurt átak hefur verið unnið í því að veita skólpi lengra frá landi, til að strandsvæði séu laus við skólpmengun.   Það er nokkuð öruggt að umhverfið í kringum skólpútrás sé meira og minna mengað af saurbakteríum og ekki síst Nóroveirum, sem taldar eru mjög algengur orsakavaldur iðrasýkinga og meðal annars taldar ábyrgar fyrir um 20 milljón sýkinga ár hvert í Bandaríkjunum einum.

Flest heilbrigðiseftirlitssvæði landsins eru með reglulega vöktun á mengun vegna skólpmengunar í sjó, þar sem sýni eru tekin reglulega ca 10-100m frá landi og mæld fyrir saurbakteríunum E.coli og Enterococcus. Niðurstöður þessara mælinga benda ekki til að þessar örverur séu vandamál við strendur Íslands, líkt og raunin er um ýmis mikilvæg svæði fyrir fiskeldi, s.s. Mekong fljótið í Víetnam.

Á hinn bóginn liggja engar niðurstöður fyrir um nóróveirur í skólpi eða veiðisvæðum. Nýlegar rannsóknir á skelfiski í Evrópu hafa sýnt fram á hættulega mengun af völdum nóróveira þrátt fyrir að vöktun lögbærra eftirlitsaðila hafi ekki sýnt fram á mengun af völdum saurbaktería. Vegna algengi nóróveirusýkinga og viðnáms nóróveira fyrir harðneskjulegu umhverfi þarf þetta í raun ekki að koma á óvart. Í kjölfarið má líklega búast við að ítarlegri viðmiðunarmörk verði sett fyrir flokkun veiðisvæða skelfisks þar sem bæði verður tekið tillit til mengunar af völdum E.coli og nóróveira.

Þrátt fyrir þetta hafa nóróveirur í raun verið tiltölulega takmörkuð áhætta fyrir stærstan hluta íslenskra sjávarafurða – hingað til.  Þegar nýting á slógi er að aukast, eins og hefur verið að gera sl. ár – þurfum við að horfa sérstaklega til áhættunnar sem hlotist getur af nóróveirum. Það á sérstaklega við í þeim tilvikum þar sem hitameðhöndlun á slóginu er takmörkuð, líkt og verður ávallt raunin ætli menn sér að þróa vörur með lífvirkni, t.d. í notkunar í snyrti- og eða lækningavörur.  Hér er að mínu mati afar mikilvægt að menn vandi sérstaklega til verka og nýti bestu þekkingu til þróunar og framleiðslu.  

Það væri mikil hætta á að orðspor íslensks sjávarfangs biði alvarlegan hnekki ef hópsýking af völdum nóróveira yrði rakin til íslenskra vara úr sjávarfangi.   Slíkt gæti orðið stærri krísa en við höfum áður þekkt.

Alþjóðlegar krísur hafa breytt – og munu halda áfram að breyta – umhverfi matvælaöryggis í heiminum.  Baunaspírumálið kostaði 53 lífið og yfir 3900 sýktust í tengslum við neyslu á…..já á hverju?  Fyrst var talið að spænskir grænmetisframleiðendur bæru höfuðábyrgð, en á endanum var málið rakið til baunaspíra sem bárust inn á Evrópumarkað frá Egyptalandi. Einn þeirra sem stóð vægast sagt í eldlínunni í baunaspírumálinu var prófessor, dr. dr. Andreas Henzel, en hann er forseti BfR, sem er ein virtasta stofnun heims á sviði áhættumats í matvælaframleiðslu.  Sami Andreas Henzel leiðir nú vaskan hóp þýskra sérfræðinga sem munu verða Matís og MAST til aðstoðar í verkefninu Örugg Matvæli, en þar mun m.a. verða unnið að uppsetningu og faggildingu á nýjum tækjabúnaði sem m.a. mun gera okkur kleift að mæla þörungaeitur í skelfiski og uppfylla þær skyldur sem Ísland hefur undirgengist vegna EES samningsins.

Þekktasta krísan í matvælaframleiðslu síðastliðið ár er líklega „Stóra hrossakjötsmálið“ sem skók vægast sagt evrópskan matvælamarkað veturinn sem leið.  Magnús Bjarnason hjá Icelandic Group nefndi hrossakjötsmálið sérstaklega í erindi á aðalfundi LÍÚ sl. haust, enda engin furða.  Málið hefur í raun breytt matvælamörkuðum Evrópu. Eins og flestir þekkja snerist hrossakjötsmálið í grundvallaratriðum um að óprúttnir matvælaframleiðendur höfðu skipt nautakjöti út fyrir mun ódýrara hráefni  - hrossakjöt - og þannig í raun stundað vörusvik.  Eins og gefur að skilja varð reiði neytenda mikil – sem m.a. lýsti sér að nokkru leyti í því að þeir sneru sér frá nautakjöts – eða hrossakjötsneyslu -  og yfir til sjávarfangs.  Eins dauði hefur alltaf verið annars brauð.

Erfðafræði og notkun erfðafræðilegra aðferða við að greina muninn á nauta- og hrossakjöti reyndist lykillinn að því að koma upp um svikin, en sviksemi í virðiskeðju nautakjöts hlutu óneitanlega að beina augum að öðrum virðiskeðjum matvælaframleiðslu.  Þannig fylgdu í kjölfarið ýmsar uppgötvanir, t.d. rottur í stað lambakjöts í Kína – og eins fisktegund í stað annarrar víða um heim.

Og þá erum við í raun komin að fölsunum – Þær eru ekki endilega hættulegar heilsu manna – líkt og nóróveirurnar, en fölsunum fylgir mikil orðsporsáhætta, ekki síst nú á tímum hraðrar fjölmiðlaumfjöllunar og dreifingar upplýsinga á internetinu.  Ekki síður þarf að hafa í huga þær breytingar sem matvælamarkaðir ganga nú í gegnum, bæði með tilliti til markaðssvæða og framleiðslu, þar sem nýmarkaðslöndin gegna lykilhlutverki.

Það er ekkert nýtt við að menn séu ekki fullkomlega heiðarlegir þegar kemur að því að þekkja í sundur fisktegundir.  En eftir hrossakjötshneykslið þarf að gera sér ljósa áhættuna sem því fylgir.  Það reyndist Matís þrautaganga að fjármagna tækjakaup sem gera okkur kleift að uppfylla skyldur Íslands vegna EES samningsins og tókst það ekki fyrr en núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tók af skarið með málið, enda vel meðvitaður um útflutningshagsmuni íslensks matvælaiðnaðar.  Það eru hinsvegar ýmsir matvælaframleiðendur betur efnum búnir en opinber hlutafélög á Íslandi.  Þannig sagði Mike Mitchell, hjá Youngs Seafood frá því á World Seafood Congress nú í haust að fyrirtækið hefði tekið í notkun erfðatækni til að greina hvort birgjar seldu þeim aðrar fisktegundir en þeir gæfu upp.  Mér segir svo hugur að Youngs séu ekki þeir einu sem það hafa gert.

Slíkar fjárfestingar matvælaframleiðenda eru ekki tilviljun.  Í þessu samhengi hefur oft verið bent á Tilapiu sem dæmi um ódýran hvítfisk sem í raun geti tekið sér nánast öll hlutverk þegar kemur að framleiðslu sjávarafurða.  Þannig hefur Tilapíunni verið líkt við Meryl Streep, sem óneitanlega er mjög fjölhæf leikkona sem ræður við ýmiskonar hlutverk.  Stóri munurinn er hinsvegar sá að þegar Meryl Streep leikur í bíómynd, þá kemur hún fram á lista yfir leikarana.  Sú hefur ekki alltaf verið raunin með Tilapiu, eða aðrar ódýrari fisktegundir sem ratað hafa í uppskriftir undir „dulnefnum“.  

Slík „dulnefni“ eru óheiðarleg vinnubrögð og falsanir gagnvart kaupendum.  Falsanir sem skapa ójafnt samkeppnisumhverfi gagnvart heiðarlegum framleiðendum og ýta undir vantrú neytenda.  Mig langar því að endurtaka orð mín um að afar mikilvægt sé að íslenskur sjávarútvegur sé í stakk búinn að sýna kaupendum fram á að hér sé framleiðsla í samræmi við lög, reglugerðir og kröfur markaða.  Þannig munum við byggja upp grundvöll til enn frekari verðmætasköpunar í þekkingariðnaðinum sjávarútvegi.

Nýlega var valið fegursta íslenska orðið.  Ekki ætla ég að fjölyrða um niðurstöður valsins hér, en langar til að vitna til orða Friðleifs Friðleifssonar hjá Iceland Seafood, sem sagði á aðalfundi LÍÚ sl. haust eitthvað á þá leið að orðið AFHENDINGARÖRYGGI væri meðal fegurstu orða íslenskrar tungu að sínu mati.  Ég er á margan hátt sammála Friðleifi, en langar til að benda á annað gott íslenskt orð sem skiptir miklu máli fyrir verðmætasköpun í íslenskum sjávarútvegi.  Það er orðið ORÐSTÍR.

Í Hávamálum Snorra Eddu segir að orðstír deyi aldrei, hafi menn getið sér góðs orðs.  Vonandi er það rétt, því íslensk matvæli hafa góðan orðstí og orðspor að verja.  Við þurfum þó að hafa í huga að internetið, ásamt ýmsu fleiru hefur breytt miðlun upplýsinga á dramatískan hátt sl. ár, þ.a. það er ekki víst að Snorri hafi alveg rétt fyrir sér, þó mörg góð ráðin megi vissulega sækja í Hávamál.

Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís.


Fréttir