Matís horfir á eftir starfsmönnum sínum með bros á vör

21.8.2013

Frá stofnun Matís árið 2007 hefur fjöldi nemenda verið við rannsóknartengd störf hjá fyrirtækinu og margir þeirra hafa kosið að starfa áfram hjá Matís að námi loknu. Enda hefur Matís lagt metnað sinn í að hlúa vel að nemendum sínum og í höfuðstöðvum fyrirtækisins er til að mynda stórt skrifstofurými ætlað þeim sem stunda rannsóknir í tengslum við nám sitt.

Ein af ástæðum þess hve margir nemendur hafa komið til starfa hjá Matís er gott samtarf við Háskóla Íslands sem og aðrar menntastofnanir hér á landi. Þá hefur rannsóknartengt nám í samstarfi við Matís verið stökkpallur fyrir marga nemendur út í atvinnulífið. Hvort sem þeir hefja störf innanhús eða annarstaðar að námi loknu, þá þykir ljóst að vinnan hjá Matís skilaði vel undirbúnum starfsmönnum út á vinnumarkaðinn.

Þá er það einnig svo að sumir þeirra sem héldu áfram að vinna hjá Matís að námi loknu eða meðfram framhaldsnámi sínu hafa getið sér svo góðs orðspors að þeim hefur verið boðin störf hjá öðrum fyrirtækjum, oftar en ekki samstarfsaðilum Matís, vegna þekkingar sinnar og hæfni. Þessi staðreynd er mikið gleðiefni fyrir Matís. Þrátt fyrir að fyrirtækið sjái allaf á eftir góðum starfsmönnum, þá er ekki síðra að sjá þá blómstra annarstaðar, vitandi hvar grunnurinn var lagður.

Við hjá Matís höfðum samband við nokkra fyrrum nemendur og starfsmenn sem hafa getið sér góðs orðspors annarstaðar og spurðum við hvað stæði helst upp úr, frá þeim tíma þegar þau störfuðu hjá fyrirtækinu:

Björn Margeirsson Hóf störf hjá Matís 2007 og starfaði hér meðfram doktorsnámi til 2012. Doktorsverkefnið sem snerist um kælingu á ferskum fiski og var unnið í samvinnu við pakkningaframleiðandann Promens Tempra, Eimskip, Samherja, Brim o.fl. Hann starfar nú sem rannsóknastjóri hjá Promens Tempra. Hann segir að Doktorsverkefnið og störf sín hjá Matís hafi gefið sér fræðilegan bakgrunn og innsýn í íslenskan sjávarútveg.  „Sem gerðu mér kleift að þróast í starfi og opna mér spennandi atvinnumöguleika hjá Promens, þar sem ég starfa nú sem rannsóknastjóri. Það sem stendur upp úr frá tíma mínum hjá Matís er ánægjulegt samstarf í síkviku umhverfi mitt á milli háskóla og iðnaðarins.” 

Guðmundur Gunnarsson Hóf störf hjá Rf/Matís 2006 og starfaði sem stöðvarstjóri á Höfn í Hornafirði. Hann hóf störf sem framleiðslustjóri hjá Skinney-Þinganes á Höfn árið 2010. „Sá tími sem ég vann hjá Matís hefur verið góður grunnur fyrir núverandi starf mitt.“ Þá segir hann að tíminn sem fór í að skilgreina starfsemi Matís við stofnun þess fyrirtækis standi uppúr auk þess að hafa komið upp Matarsmiðju á Höfn.

Hólmfríður Sveinsdóttir Starfaði sem sérfræðingur á lífefna- og líftæknisviði Matís á Sauðárkróki frá 2009 – 2013 en þá tók hún við sem framkvæmdastjóri Iceprotein ehf. „Hjá Matís öðlaðist ég reynslu, bæði sem vísindamaður og sem verkefnastjórnandi, sem nýtist mér tvímælalaust í mínu starfi í dag. Það sem stendur upp úr er það mikla traust sem mér var sýnt og sú mikla hvatning sem ég fékk frá mínum yfirmönnum hjá Matís. Þar fékk ég einnig tækifæri til að vinna með mjög færum sérfræðingum bæði innan Matís sem utan. Allt þetta styrkti mig mikið.“

Kristín Anna Þórarinsdóttir Hóf störf hjá Rf/Matís meðfram meistaranámi árið 1998. Eftir það vann hún við rannsóknir hjá Matís og fór svo í doktorsnám sem lauk 2010. Meistara- og doktorsverkefnin hennar fjölluðu um eðliseiginleika saltfisks og stýringu í saltfisksverkun. Kristín starfar í dag á sviði nýsköpunar hjá Marel. „Öll menntun á sviði matvælaframleiðslu og sjávarútvegs, eykur skilning á því sem menn eru að fást við í gegnum virðiskeðjuna, allt frá veiðum og þar til afurðin er komin á borð neytandans. Þannig er hægt að gera góða hluti enn betri og halda okkur í fremstu röð í veiðum og vinnslu á fiskafurðum. Hjá Matís öðlaðist ég færni sem hefur nýst mér vel hér hjá Marel og ég veit að svo mun halda áfram.“

Við gleðjumst yfir því að vera brúin sem tengir vísindin og atvinnulífið á skilvirkan og atvinnuskapandi hátt og geta þannig boðið nemendum okkar raunveruleg tækifæri til rannsókna og áhrifa.

Nánari upplýsingar veitir Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís.


Fréttir