Varnarefni í skólamáltíð drógu börn til dauða

29.7.2013

Við matvælaframleiðslu eru gjarnan notuð varnarefni, sem eiga að stuðla að betri uppskeru og koma í veg fyrir skaða af völdum illgresis, sveppa og meindýra. Reglugerðir eiga að vernda neytendur fyrir því að neyta þessara efna, en þrátt fyrir það liggja nú 22 börn í valnum eftir neyslu mengaðrar fæðu.

Nýlega bárust sorglegar fregnir frá Indlandi. En þar í landi höfðu 22 börn látist eftir að hafa neytt skólamáltíðar. Í Indlandi er talið að um það bil 120 milljón barna séu vannærð, en reynt hefur verið að sporna við því með matarátaki sem kallast „India Mid-Day Meal programme“ eða miðdags mataráætlunin. Henni er ætlað að sjá til þess að börn vítt og breitt um landið fái að minnsta kosti eina heita máltíð á dag í skólum landsins.

Mataráætlunin á sér langar rætur en hún hófst árið 1925. Almennt hefur verið mikil ánægja með verkefnið, en í mörgum tilfellum er hún eina heita máltíð dagsins og er jafnvel það eina sem þau fá að borða dag hvern. Gæði fæðunnar eru þó misjöfn milli landshluta. Í fátækari héröðum landsins vantar oft mikið upp á að fæðan og aðbúnaður í kringum matargerðina sé í lagi. Hreinlæti er gjarnan ábótavant og geymsluaðstæður slæmar, sem veldur því að skordýr gera sig heimakomnar í matarbirgðunum. Lítið sem ekkert eftirlit er af hálfu stjórnvalda með matnum sem boðið er upp á. Enda hafa komið upp alvarleg tilfelli matareitrana í skólum landsins sem oftast hafa verið rakin til óþrifnaðar.

Menguð steikingarolía

Nú liggja 22 börn í valnum eftir að hafa neytt máltíðar í skóla í Bihar héraði og 28 börn eru alvarlega veik. Máltíðin sem samanstóð af hrísgrjónum, kartöflum og sojabaunum er talin hafa innihaldið skordýraeitur af tegundinni monocrotophos sem er almennt hættulegt mönnum og sérstaklega börnum og getur valdið alvarlegum veikindum eða jafnvel dauða, þó þess sé einungis neytt í litlu magni. Rannsókn á atvikinu hefur leitt í ljós að eitrið barst í matinn með steikingarolíu, sem notuð var til matreiðslunnar. Olían hafði verið geymd í brúsa sem áður innihélt skordýraeitur.

Varnarefni á borð við þetta tiltekna skordýraeitur eru efni sem notuð eru við ræktun og geymslu matvæla svo sem ávaxta, grænmetis og kornvara, til að draga úr eða koma í veg fyrir skaða af völdum illgresis, sveppa og meindýra. Varnarefnum er yfirleitt skipt í fjóra flokka eftir notkun þeirra þ.e.  skordýraeitur, illgresiseyðar, sveppalyf og stýriefni (stjórna vexti plantna). Ákveðnar reglur gilda um notkun varnarefna á vaxtartíma, t.d. hve langur tími þarf að líða frá notkun þar til kemur að uppskeru. Þá gilda ákveðnar reglur um hvaða varnarefnaleifar (þ.e. leifar af varnarefnum eða umbrots-, niðurbrots- eða myndefnum þeirra) mega mælast í mismunandi matvælum og í hvaða magni. Rétt notkun varnarefna við framleiðslu og geymslu matvæla á að tryggja að litlar sem engar leifar þeirra finnist í matvælum sem tilbúin eru til neyslu.

Matís skimar fyrir varnarefnum

Á Íslandi fylgjum við reglugerðum Evrópusambandsins um hámark leyfilegra efnaleifa í matvælum. Þá gilda einnig strangar reglur um notkun slíkra efna og mörg efni sem áður voru notuð eru nú bönnuð, þar með talið efnið monocrotophos, sem olli veikindum og dauða indversku barnanna. Hér á Íslandi eru ávextir og grænmeti skimað fyrir varnarefnum, Matís sér um það fyrir Matvælastofnun Íslands (MAST) sem er opinber eftirlitsaðili. Í dag skimar Matís fyrir 63 varnarefnum í innlendum og innfluttum ávöxtum og grænmeti, ef varnarefni greinast yfir leyfilegum hámörkum fer í gang ákveðið ferli, sem leiðir alltaf til aukins eftirlits og  getur leitt til innköllunar.

Um þessar mundir er í gangi verkefni hjá Matís sem kallast „Örugg matvæli“ sem miðar að því að byggja upp tækjabúnað okkar til þess að geta aukið við rannsóknir og eftirfylgni með matvælum sem eru í framleiðslu og sölu hér á landi. En eitt af lögbundum hlutverkum Matís er að bæta matvælaöryggi hérlendis en það eru grunnur allrar matvælaframleiðslu. Magn matvæla og fæðuöryggi er einskis vert ef matvælin sem á að neyta eru ekki örugg.

Minnkum áhættuna – þrífum ávextina

Þrátt fyrir að fá dæmi séu um hættuleg aukaefni í matvælum á markaði hérlendis, ættu allir að tileinka sér að þrífa ávexti og grænmeti vel fyrir notkun, auk þess sem gott getur verið að skola vel af þurrvöru á borð við hrísgrjón. Þannig minnkum við líkurnar á neyslu óhollra aukaefna, sem seint verður hægt að forðast algjörlega þar sem þau tryggja einnig að við fáum ferska vöru sem vex nægilega hratt til að geta svarað eftirspurn.


Fréttir