3X Technology semur við HB Granda

24.7.2013

Samstarfsaðili Matís til langs tíma skrifaði á dögunum undir samning við HB Granda sem leggur þar með grunninn að fyrirkomulagi um borð í ísfisktogurum til framtíðar.

3X Technology hefur nú gengið frá samningi við HB Granda um hönnun, smíði og innleiðingu heildarlausnar á vinnsludekki um borð í Helgu Maríu AK, en sem kunnugt er hefur Helga María lokið sinni síðustu veiðiferð sem frystitogari og mun verða gerð út sem ísfisktogari að afloknum breytingum. Lausnin byggir á rannsóknum, mælingum og vöruþróun sem unnin hefur verið í samstarfi íslensk sjávarútvegsfyrirtæki, Matís og 3X Technology á undanförnum árum.

Jóhann Jónasson framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir samstarfið með Matís hafa skipt sköpum: „Samstarf okkar og sú staðfasta sannfæring starfsfólks Matís og 3X Technology um að framtíð og megin tækifæri íslensk sjávarútvegs felist í að byggja á gæða framleiðslu er að skila þessu í höfn, því að fyrirtæki á borð við HB Granda er sömu skoðunar og þeir horfa til framtíðar með það fyrir augum að skila framúrskarandi og stöðugum gæðum til sinna viðskiptavina.“

Samningur sem þessi skiptir máli

„HB Grandi er án efa eitt öflugasta félag landsins og því er þessi samningur mikil viðurkenning fyrir okkar ágæta samstarf. Það er ríflega eitt ár síðan að þetta verkefni með HB Granda hófst og þessi áfangi er okkur afar kær og hafa margir starfsmenn frá þessum þremur fyrirtækjum lagt hönd á plóginn og skapað þennan árangur“.

Jóhann þakkar Matís kærlega fyrir samstarfið og segist hlakka til áframhaldandi samstarfs, enda hafi það gefið fyrirtækinu byr undir báða vængi. „Vinnsludekkið um borð í Helgu Maríu er eitt það fullkomnasta sem við hjá 3X höfum komið að í ísfisktogara og mun leggja sterkan grunn að framtíðar fyrirkomulagi um borð í slíkum skipum“.

Munur á afurðum

„Fyrr í vetur seldum við í  3X Technology íslenskum saltfiskverkanda, Fiskkaupum ROTEX búnað um borð í línu- og netaskipið Kristrúnu RE-177, en Fiskkaup selur saltfisk m.a. til Ítalíu. Ítalskir viðskiptavinir þeirra voru sáttir við vörurnar áður en eru nú mjög ánægðir, þeir segja að fiskurinn hafi nú bjartari blæ en áður. Það styður allt hvort annað, þó við sáum ekki auðveldlega mun á fisknum þegar hann var tekinn í hús þá er hann hvítari þegar hann er kominn á markað, það er eins og kom í ljós þegar fiskurinn, hráefnið, var mælt hjá Matís og niðurstöður þeirra mælinga bentu til að munur væri á fiski sem væri meðhöndlaður á hefðbundinn hátt og fiski sem fór í gegnum okkar ROTEX skipalausnir“.

Matís óskar 3X Technology innilega til hamingju með áfangann!


 
 Tölvuteikning af Rótex vinnsludekki


Fréttir