Matís tekur þátt í „Fiskideginum  mikla“

15.7.2013

Bæjarhátíðin „Fiskidagurinn mikli“ verður haldin laugardaginn 10. ágúst á Dalvík. Á hátíðinni gefst gestum og gangandi tækifæri til að smakka margvíslega fiskrétti og súpur. Matís mun verða einn af styrktaraðilum hátíðarinnar á næsta ári.

Fiskidagurinn mikli er árviss bæjarhátíð á Dalvík þar sem fiskneysla er í forgrunni. Fiskidagurinn mikli er haldinn laugardaginn eftir verslunarmannahelgi. Þar bjóða fiskverkendur og heimamenn upp á ýmsa fiskrétti sem almenningur fær að smakka. Í boði eru oft á tíðum nýstárlegir réttir sem minna á að sjávarfang er úrvals hráefni sem býður upp á mikla möguleika. Einn vinsælasti réttur Fiskidaga er til að mynda fiskborgarar sem eru grillaðir á 8 metra löngu grilli.

Allir fá að borða eins og þeir geta í sig látið af fisk


Á föstudagskvöldinu fyrir Fiskidaginn mikla er Fiskisúpukvöldið mikla haldið, en þá bjóða bæjarbúar gestum og gangandi að smakka heimagerða fiskisúpu sem hver og ein fjölskylda hefur lagaða eftir sínu höfði.

Hátíðin byggir því að miklu leyti á jákvæðri upplifun af fiskneyslu og ýtir þar með undir hana. Það er ákaflega jákvætt, enda teljum við hjá Matís að aukinn fiskneysla sé góð fyrir lýðheilsu þjóðarinnar. Á Íslandi hefur fiskneysla átt undir högg að sækja þrátt fyrir að heilsusamleg áhrif séu vel þekkt. Þar sem eitt af markmiðum Matís er að bæta lýðheilsu leggjum við áherslu á að hvetja til fiskneyslu og stuðla að nýsköpun í matvælaframleiðslu. Því er einstaklega ánægjulegt að taka þátt í þessari hátíð. Í ár mun Matís kynna starfssemi sína með Grími Kokk, en fyrirtækin hafa átt í góðu samstarfi síðan 2008 og vinna nú að þróun á neytendavænum vörum sem auðgaðar hafa verið með lífrænum efnum úr sjávarafurðum.

Þá er okkur sönn ánægja að tilkynna að Matís verður styrktaraðili Fiskidagsins mikla 2014!

Ferkari upplýsingar um hátíðina má nálgast á heimasíðu Fiskidagsins mikla.

*Meðfylgjandi mynd er fengin af heimasíðu fiskidagsins mikla.


Fréttir