Nýleg samantektarskýrsla afhjúpar eiturefni í umhverfinu

5.7.2013

Nýleg yfirlitsskýrsla um per- og  polyflúoreruð alkanefni (PFC) leiddi í ljós að talsvert vantar af eðlisefnafræðilegum gögnum um stóran hluta þessara efna. En vísbendingar er um að þau geti valdið alvarlegum eituráhrifum og skaðað heilsu manna og dýra.

Markmið verkefnisins var að afla frekari upplýsinga um hvernig PFC efni eru notuð og losuð á Norðurlöndunum og á Norðurheimsskautssvæðinu. Samantektarskýrslan var unnin af Matís í samstarfi við hóp sérfræðinga á Norðurlöndunum, fyrir KLIF (Norwegian Climate and Pollution Agency) og Norræna efnafræðihópinn (NKG) sem heyrir undir Norrænu ráðherranefndina (Nordic Council of Ministers).

Hafa áhrif á æxlun

PFC efni eru mjög stór og flókinn hópur af lífrænum efnum sem hafa fjölbreytta virkni. Þau hafa verið framleidd í um 50 ár með efnasmíðum en þau myndast ekki af náttúrunnar hendi. Þau eru víða notuð í iðnaði og inn á heimilum. Notkun þeirra hefur hingað til verið talin örugg og því verið töluverð. Hinsvegar fóru áhyggjur vísindamanna að vakna þegar víðtæk útbreiðsla efnanna uppgötvaðist í umhverfinu (m.a. í ísbjörnum), sérstaklega í ljósi þess að rannsóknir benda til  þess að PFC efni geti t.d. haft áhrif á æxlun og að þau brotni sérstaklega hægt niður í náttúrunni.

Í kjölfar þessara uppgötvana hefur athygli ESB nú beinst að því að skoða notkun þessara efna og flokkun. OECD hefur skráð samtals 853 mismunandi flúorefnasambönd og fleiri eiga eftir að bætast í hópinn. Þessi tala gefur til kynna að fjöldi flúoreraðara efna eru notuð í dag, á sama tíma og lítið er vitað um uppsprettur efnanna og enn minna um dreifingu þeirra og umhverfisáhrif.

Verkefnavinnunni var skipti í þrjá aðalþætti. Í fyrsta lagi greiningu á helstu per- og polyflúoreruðu efnunum og notkun þeirra í ýmsum atvinnugreinum á norrænum markaði. Í öðru lagi greiningu á mögulegri losun og áhrifum í norrænu umhverfi og í þriðja lagi samantekt á þekkingu á eituráhrifum forgangsefna í þessari könnun. Bæði voru skoðuð áhrif á menn og dýr.

Fáar vísindarannsóknir um PFC efni

Niðurstöðurnar bera það með sér að töluverður upplýsingaskortur er um flest PFC efna á norrænum markaði. Í afar fáum tilfellum liggja fyrir nákvæmar markaðsupplýsingar um efnasamsetningu, magn, framleiðslu og notkun þeirra. En samkvæmt núverandi löggjöf er ekki skylt að birta upplýsingar um tiltekin PFC efni. Þessar eyður eru til komnar vegna vanþekkingar og viðskiptaleyndamála. Einungis fáeinar vísindalegar rannsóknir hafa verið gerðar um flest PFC efni í norrænu umhverfi og litlar sem engar rannsóknir hafa verið gerðar um áhrif efnanna á menn. Hinsvegar hafa eiturverkunarrannsóknir á dýrum sýnt að einstök PFC efni geta haft neikvæð áhrif á eðlilega þróun, æxlun og ónæmiskerfi með því að minnka líkamsþyngd, valda lifrareitrun og hafa áhrif á innkirtla kerfið, þ.á.m. kyn- og skjaldkirtilshormón.

Þegar eituráhrifa gætir vegna PFC efna er sjaldnast einu efni um að kenna, heldur er yfirleitt um blöndu af ýmsum PFC efnum að ræða í bland við aðra umhverfisþætti. Í framtíðar rannsóknum á PFC efnum þarf því að leggja áherslu á áhrif blöndunar PFC efna og afleiður þeirra. Auk þess sem þörf er á viðmiðunarefni til greiningar, gögn um eiturefnafræði og upplýsingar um tilvist þeirra í mönnum og umhverfi. 

Rannsóknarskýrslan var birt sem Tema Nord skýrsla og má nálgast hana á heimasíðu Norrænu ráðherranefndarinnar (http://www.norden.org/en/publications/publikationer/2013-542).


Fréttir