Tracefish: Staðlar til auðvelda viðskipti með fisk.

26.11.2002

Nýlega var haldinn á Spáni lokafundur í Tracefish-verkefninu, en það fjallar um rekjanleika á fiski og var því skipt í þrennt: rekjanleiki villts fisks, rekjanleiki eldisfisks og tæknihópur. Rf var þátttakandi í vinnnu við staðalinn fyrir villtan fisk.

Megintilgangur verkefnisins var að finna leiðir til að auðvelda samskipti og upplýsingamiðlun í viðskiptum með fisk og er kosturinn við samræmda staðla sá að upplýsingar eru alls staðar á sama formi.

Niðurstaðan úr verkefninu eru tveir staðlar, annars vegar fyrir skráningar í fiskeldi og hins vegar fyrir villtan fisk. Staðlarnir voru samþykktir sem CWA-staðlar(Commité Européan de Normalisation- Workshop Agreement). Þeir staðlar sem voru samþykktir eru eftirfarandi:

1) Til að tryggja rekjanleika í allri keðju fiskeldis og fiskeldiafurða, hvaða upplýsingar þarf að skrá, hvernig og hvar
2) Til að tryggja rekjanleika í allri keðju villts fisks, hvaða upplýsingar þarf að skrá, hvernig og hvar

Afrakstur tæknihópsins var tæknilegur staðall um það hvernig á að senda upplýsingar á milli hlekkja í rekjanleikakeðjunni. Þessi staðall er ekki samkvæmt CWA vegna þess að hann þarf að vera aðgengilegur á netinu, en slíkt samrýmist ekki vinnureglum CWA.

Staðlarnir eru sveigjanlegir í þeim skilningi að ekki er nauðsynlegt að skrá allar upplýsingar sem koma fram í staðlinum, en ákveðnar grunnupplýsingar eru þó nauðsynlegar til að uppfylla staðalinn. Upplýsingar eru flokkaðar á þrjá mismunandi vegu:

Grunnupplýsingar
Sérstaklega umbeðnar upplýsingar tengdar öryggi, gæðum og merkingu
Markaðslega æskilegar upplýsingar

Lykilatriðið er að "skráning" getur verið á pappírs eða rafrænu formi, en mælt er með rafrænu formi. Það skal tekið skýrt fram að þessir staðlar eru ekki lögbundnir staðlar heldur er iðnaðurinn sjálfviljugur um notkun þeirra til að auðvelda rekjanleika og samskipti í keðjunni.

Lokafundinn á Spáni sóttu þeir Guðjón Gunnarsson frá Fiskistofu og Bjarni Áskelsson frá Samtökum uppboðsmarkaða.


Fréttir