3X og VaxVest í samstarf

19.5.2013

3X Technology á Ísafirði og Vaxtarsamningur Vestfjarða hafa undirritað samning til að styrkja prófanir á nýjum búnaði sem fyrirtækið er að þróa, FILTREX vatnshreinsibúnaði. Verkefnið er unnið í samvinnu við Matís og rækjuvinnslu Kampa.

Miklar væntingar eru til þessa nýja búnaðar sem seldur verðu sem viðbót við helstu framleiðsluvöru 3X Technology, ROTEX, sem notaður er við kælingu og uppþíðingu í matvælavinnslu. ROTEX búnaður þarf mikið vatn við notkun en með FILTREX búnaði verður hægt að nota sama vatnið í a.m.k. tvo sólarhringa í stanslausri vinnslu ásamt því að fanga verðmæt efni úr vatninu, t.d. prótein. 

FILTREX búnaður verður jafnframt seldur sem sjálfstæður búnaður til að hreinsa affallsvatn frá matvælavinnslum, áður en því er skilað út í umhverfið. Miklar og auknar umhverfiskröfur eru gerðar um allan heim um að skila vinnsluvatni hreinsuðu út í náttúruna og því bindur fyrirtækið miklar vonir við eftirspurn eftir þessari nýju tækni. Innan Matís er þekking til að vinna svona verkefni og Kampi leggur til rækjuvinnslu sína til að prófa og þróa nýjan búnað. 3X Technology hefur sótt um styrk til Tækniþróunarsjóðs til þróunar á búnaðinum og vonast eftir jákvæðu svari á vormánuðum.

3X Technology hefur mikla reynslu við hönnun og smíði á búnaði og hefur lagt til um 5% af veltu í R&Þ undanfarin ár. Velgengni fyrirtækisins byggir á nýsköpun og sölu á einstökum lausnum fyrir kröfuharðan markað á tækjabúnaði til matvælaframleiðslu. FILTREX búnaðurinn mun bæta samkeppnisstöðu 3X Technology á markaði fyrir þíðingar- blóðgunar og kælitæki fyrir matvælaframleiðslu. Fyrirtækið hefur náð miklum árangri í framleiðslu á slíkum búnaði fyrir framleiðslu á eldisfiski og mun FILTREX enn bæta þá stöðu í framtíðinni. Í dag er sala á ROTEX búnaði um 10 til 15 kerfi á ári á heimsmarkaði, en búast má við aukinni sölu með FILTREX búnaði, til svæða þar sem vatn er takmarkað og/eða miklar kröfur gerðar til umhverfisverndar. Auknar kröfur er frá markaðinum um grænar lausnir að vörur séu framleiddar með umhverfisvernd í huga.

Fréttin birtist fyrst á vef Bæjarins besta á Ísafirði, www.bb.is, 16. maí sl.


Fréttir