Noregur: Útflutningsverðmæti sjávarafurða minnkar.

12.11.2002

Fyrstu 10 mánuði ársins fluttu Norðmenn út sjávarafurðir fyrir um 280 milljarða íslenskra króna. Það er um 20 milljörðum króna lækkun útflutningsverðmæta frá sama tímabili í fyrra. Mestu munar um minni tekjur af útflutningi á þorski og lax til ESB-landa.

Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Útflutningsráðs norskra sjávarafurða. Þrátt fyrir aukið magn útfluttra sjávarafurða til ESB-landa fyrstu 10 mánuði ársins 2002 þá er verðmætið mun minna en í fyrra. Mestu munar um lækkun á verði þorsks, einkum saltfisks, og á laxi.

Norskar sjávarafurðir eru þó í sókn í austurátt því að verðmæti úflutnings til Rússlands jókst um rúm 20% frá sama tíma í fyrra, einkum vegna aukinnar síldarsölu. Það nær þó skammt til að vega upp minnkandi útflutningsverðmæti á hinum mikilvæga ESB-markaði.


Fréttir