Deilir þú húsnæði með myglusveppi?

16.4.2013

Viltu vita hvort myglusveppur hefur búið um sig í þínu húsnæði? Matís býr yfir góðum tækjabúnaði til nákvæmra mælinga á myglugróum og öðrum örverum í andrúmslofti.

Hægt er að fá sérfræðinga Matís til að koma á staði til að taka sýni en einnig er hægt að fá tækjabúnaðinn leigðan gegn föstu daggjaldi. Matís útvegar allan ræktunarbúnað og sér um ræktun sýna. Einnig er veitt aðstoð við túlkun niðurstaðna ef þess er óskað.

Viðskipavinir geta haft samband við svið Mælinga og miðlunar til að fá nánari upplýsingar um þjónustuna og  tilboð í einstök verkefni. Nánari upplýsingar veitir Franklín Georgsson hjá Matís.

Myglumengun í andrúmslofti - nánari upplýsingar

Einstaklingar sem búa eða starfa í myglumenguðum húsakynnum eða umhverfi geta þjást af ýmsum sjúkdómseinkennum sem lýsa sér meðal annars með þreytu, höfuðverk, einbeitingarleysi, öndunarörðuleikum, ertingu í augum og kláða í húð.  Þá getur snerting við myglusveppi haft örvandi áhrif á sjúkdóma eins og ofnæmi, astma, kvef og ýmsar aðrar sýkingar.

Helstu orsakir fyrir mygluvandamálum í heimahúsum geta verið leki frá leiðslum, þaki og vegna rakamyndunar á ýmsum stöðum. Mikilvægt er að húsnæði sé vel loftræst og ef vart verður við rök og blaut svæði þarf að grípa strax til aðgerða til að þurrka upp svæðin og koma þannig í veg fyrir mygluvöxt til frambúðar. Stundum getur verið erfitt að rekja uppruna mygluvaxtar þegar hann leynist á ýmsum óaðgengilegum stöðum eins og inn í veggjum og gluggapóstum, undir ofnum eða gólfefnum og undir eða á bakvið þung húsgögn.   
                          
Þar sem mygla nær að vaxa að einhverju ráði má búast við aukinni mengun í innilofti viðkomandi húsnæðis sem fyrst og fremst stafar af miklum fjölda myglugróa sem sveppirnir mynda og losa út í andrúmsloftið.

Myglugró í andrúmslofti eru hluti af náttúrulegri örveruflóru loftsins. Í venjulegu velloftræstu íbúðarhúsnæði er algengt að finna álíka mikið af loftbornum sveppagróum og í útilofti. Þegar sveppagró innanhúss eru meira en tífalt fleiri en úti má búast við því að sumir einstaklingar byrji að finna fyrir einhvers konar sjúkdómseinkennum eða óþægindum.

Erfitt er að setja föst heilnæmismörk fyrir magn myglugróa í andrúmslofti og ekki eru til svo vitað sé opinberar reglur fyrir íbúðahúsnæði eða skrifstofuhúsnæði er varða mygluvöxt eða hættumörk tengd sýkingahættu einstaklinga. Þar kemur til að oft er samsetning myglutegunda mjög mismunandi með mismunandi sýkingamátt og einnig eru einstaklingar mjög misnæmir fyrir sýkingum. Viðmiðunargildi sem hafa verið notuð fyrir myglumengun innanhúss taka mið af fjölda myglugróa í einum rúmmetra af andrúmslofti. Þannig hefur magn myglugróa sem er yfir  1000 í rúmmetra talið geta bent til líklegrar myglumengunar innandyra en sé magnið 100-200 í rúmmetra eða lægra bendi það til ásættanlegs ástands.

Leiðbeiningar með notkun mælitækis.

Hér á sjá nokkrar myndir frá rannsóknaferðum

   


Fréttir