Árlegri gæðaúttekt á Rf lokið

20.9.2002

Í vikunni var lokið við árlega gæðaúttekt á starfsemi Rf. Að þessu sinni var gerð úttekt á útibúum Rf á Ísafirði og Akureyri, auk starfseminnar í Reykjavík. Þar með má segja að ISO 17025 staðallinn hafi nú að fullu tekið gildi í starfsemi Rf.

Fjórða hvert ár er gerð ítarleg úttekt á gæðakerfi Rf, svo kölluð nýúttekt, auk þess sem minni úttektir eru framkvæmdar árlega. Það er sænska löggildingarstofan Styrelsen för ackreditering och teknisk kontroll eða SWEDAC og Löggildingarstofan á Íslandi sem sjá um framkvæmd úttektarinnar.

Munurinn á nýúttekt annars vegar og árlegri úttekt hins vegar felst í því að í nýúttekt er farið mun ítarlegar yfir alla þætti í starfsemi stofnunarinnar. Á meðal þeirra þátta sem skoðaðir eru má nefna atriði eins og hæfni starfsfólks, aðferðir, uppbyggingu kerfis og utanumhald. Fyrir utan úttekt á gæðakerfi Rf í Reykjavík var gerð úttekt á gæðakerfi útibúa Rf á Ísafirði og á Akureyrir, en í fyrra voru útibú Rf í Neskaupstað og Vestmannaeyjum heimsótt..

ISO 17025 staðallinn hefur verið samþykktur í Evrópu sem arftaki EN 45001, en sá staðall var áður notaður á Rf. Í þessu sambandi má geta þess að gæðakerfi Rf var frá upphafi hannað með ISO staðla í huga, en ekki eingöngu EN 45001.


Fréttir