Aukin áhersla á öryggi matvæla í Codex

22.4.2002

Codex Alimentarius er latneskt heiti á alþjóðlegum viðmiðunarreglum um matvæli sem hafa verið í gildi s.l. 40 ár. Nú stendur fyrir dyrum að endurskoða þessar reglur til að þær endurspegli sem best aðstæður í matvæaframleiðslu í dag.

Sú viðleitni yfirvalda að setja einhvers konar samræmdar reglur um hvað megi og hvað ekki við framleiðslu og sölu matvæla er ekki ný af nálinni. Má í því sambandi nefna reglur sem Asseríumenn til forna settu um rétta vikt á korni, hinar s.k. Reinheitsgebot-reglur frá 1516 sem yfirvöld í Bæjaralandi settu um bruggun á bjór og eru enn í gildi o.s.frv.

Á síðustu öld komst talsverður skriður á þessi mál. Eftir töluverðan undirbúning var sett á fót sameiginlega nefnd, (the Codex Alimentarius Commission, CAC) árið 1961 á vegum WHO og FAO sem ætlað var að koma saman alþjóðlegum viðmiðunarreglum, Codex Alimentarius, um matvæli.

Margt hefur breyst síðan CAC var sett á laggirnar fyrir 40 árum. Meiri áhersla er núna lögð á öryggi matvæla en áður, neytendur eru betur upplýstir og kröfuharðari í dag og gera auknar kröfur um að fá að vita hvernig varan er framleidd og hvaða efni hún inniheldur.

Til stendur að ljúka fyrrgreindri endurskoðun á Codex Alimentarius á fyrri hluta næsta árs. Hagsmunaaðilar og almenningur geta sent athugasemdir til CAC fyrir 13. maí n.k.:


Fréttir