• Kafað eftir kvöldmatnum

Kafað eftir kvöldmatnum

14.10.2012

Á hafsbotni leynist ýmis fjársjóður og fjölskrúðugt lífriki. Margt ætilegt er þar að finna en sjaldgæft er að fólk beinlínis tíni upp það sem það sér í botninum og leggi sér til munns.

Þessi upplifun er kjarninn í undirbúningsverkefninu „Frá köfun til maga” (e. “Gourmet Diving”) sem styrkt er af AVS og sem Matís hefur unnið að í sumar í samstarfi við Náttúrustofu Vestfjarða, Núp ehf., Dive.is, Alan Deverell og síðast en ekki síst Sveinbjörn Hjálmarsson, kafara.

„Hugmyndin er sú að fara með ferðamenn í köfunarferðir á Vestfjörðum og leyfa þeim að tína upp skeljar og fleira sem hægt er að borða. Þeir myndu síðan fá matinn eldaðan af kokki frá Hótel Núpi, annaðhvort í fjöruborðinu þegar þeir koma upp úr sjóum eða þá á hótelinu. Maturinn yrði eldaður fyrir framan þá svo þeir fá að fylgjast með öllu ferlinu,“ segir Sveinbjörn og bætir við að á sumum stöðum sé eitthvað af flatfisk sem gott er að fanga með höndunum. Því geti ferðamennirnir hæglega orðið sér úti um stórar og góðar máltíðir.

Landslagið mjög breytilegt
Sveinbjörn kafaði og snorklaði á nokkrum stöðum á Vestfjörðum ásamt Bjarka Sigurjónssyni sem var sumarnemi á vegum Matís. Markmiðin voru þau að finna ætar tegundir, skoða staðhætti ofan- og neðansjávar og leggja gróft mat á það hversu mikið mætti tína á hverjum stað fyrir sig. „Þessir staðir eru aldrei eins, þó það séu kannski ekki nema hundrað metrar á milli þeirra, landslagið er svo breytilegt. Á nánast hverjum stað var eitthvað áhugavert að skoða betur, bæði fyrir augað og svo auðvitað bragðlaukana. Við fundum mikið af öðuskel, kúfskel og ígulkerum. Þá var einnig töluvert af hörpudiski, kræklingi, smyrslingi sem er skeljategund, trjónukrabba, einbúakrabba og beitukóngi, svo eitthvað sé nefnt. Ferðamennirnir myndu fá leiðbeiningar áður en farið er ofan í sjóinn um hvað megi tína og hvað ekki, auk þess sem ég myndi leiða þá áfram og benda þeim á hvað og hvar megi tína,“ segir Sveinbjörn.

Hugmynd sem varð til fyrir vestan
Ólafur Ögmundarson hjá Matís segir að hugmyndin sé mjög góð og þess vegna hafi fyrirtækið ákveðið að taka þátt í undirbúningsverkefninu sem gæti síðar meir leitt af sér stofnun fyrirtækis sem tæki að sér að fara með ferðamenn í köfunarferðir. „Í þessu tilviki kom umsóknin inn á borðið til mín og ég ákvað að sækja um styrk til þess að ráðast í verkefnið. Hlutverk okkar hefur að mestu snúið að verkefnastjórnun og framkvæmdum á rannsóknum. Bjarki vann að þessu fyrir okkar hönd og var undir handleiðslu minni og Kristjönu Einarsdóttur frá Náttúrustofu Vestfjarða,“ segir Ólafur.

„Hugmyndin byggir á meistararitgerð Alan Deverell. Hann var nemi í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða. Því má segja að hugmyndin hafi orðið til á svæðinu og við fórum svo lengra með hana. Lokatakmarkið er svo það að Sveinbjörn geti nýtt sér lokaskýrsluna til þess að setja af stað fyrirtæki sem selur svona köfunarferðir á Vestfjörðum,“ segir Ólafur að lokum.

Nánari upplýsingar veitir Ólafur Ögmundarson hjá Matís.

Grein þessi birtist fyrst í 7. tbl. Ægis (www.athygli.is)

 


Fréttir