• Landsmót hestamanna 2012 í Reykjavík

Matís er þátttakandi á Landsmóti hestamanna 2012 sem haldið er í Reykjavík

26.6.2012

Tuttugasta landsmótið fer fram í Reykjavík að þessu sinni. Matís kynnir starfsemi sína á mótinu en hjá fyrirtækinu er unnið með hesta- og hundaeigendum t.a.m. að með foreldragreiningum á hundum og hestum með erfðarannsóknum.

Matís býður gesti og gangandi velkomna á bás fyrirtækisins þá daga sem landsmótið stendur yfir.

Um foreldragreiningar Matís
Verkefnin felast m.a.í erfðagreiningum á nytjastofnum og villtum stofnum og úrvinnslu gagna ásamt raðgreiningum á erfðaefni lífvera og leit að nýjum erfðamörkum og þróun á erfðagreiningarsettum.

DNA greiningar eru m.a. notaðar í fiskeldi til að velja saman fiska til undaneldis. Þetta getur hraðað kynbótum og aukið varðveislu erfðabreytileikans. Á villtum stofnum eru erfðagreiningar notaðar til rannsókna á stofnum og stofneiningum. Má þar nefna lax, þorsk, leturhumar, síld, sandhverfu, langreyði o.fl. tegundir. Nota má erfðagreiningar við rekjanleikarannsóknir og tegundagreiningar hvort sem um er að ræða egg, seiði, flak úr búðarborði eða niðursoðinn matvæli.

Erfðagreiningar hafa verið notaðar í mannerfðafræði undanfarna áratugi en þessari tækni er nú í vaxandi mæli beitt í dýrafræði og sér í lagi er hún mikilvæg við rannsóknir á villtum sjávarstofnum. Þá er einnig mikilvægt markmið að þróa svipgerðartengd erfðamörk en góð erfðamörk eru grundvöllur árangursríkra rannsókna af þessu tagi.

Matís er eina fyrirtækið á Íslandi sem hefur markvisst byggt upp erfðagreiningar á dýrum.

Nánar hér.

Um landsmótið (af www.landsmot.is)

Saga Landsmótanna nær aftur til 1950 þegar fyrsta Landsmótið var haldið á Þingvöllum. Þar voru sýnd 133 hross, kynbótahross, gæðingar og kappreiðahross. Á þeim tíma var aðeins keppt í einum flokki gæðinga sem var flokkur alhliða gæðinga, auk kappreiða og kynbótasýninga.

Eftir það voru haldin Landsmót á fjögurra ára fresti, allt þar til að á ársþingi Landssambands Hestamannafélaga 1995 var samþykkt að halda Landsmót á tveggja ára fresti. Fyrsta mótið sem haldið var eftir þeim reglum, þ.e. á tveggja ára fresti var Landsmót í Reykjavík árið 2000.

Mótin hafa vaxið gríðarlega að umfangi sérstaklega hvað keppnishlutann varðar og fjölda hrossa. Það er þó áhugavert að á fyrsta Landsmót hestamanna á Þingvöllum árið 1950 sóttu um 10.000 gestir mótið. Aðsóknarmet var slegið á Gaddstaðaflötum árið 2008 þar sem hátt í 14.000 gestir, knapar, starfsmenn og sjálfboðaliðar komu saman.  

Landsmót hestamanna hefur verið stærsti íþróttaviðburður landsins frá upphafi, enda er Landssamband hestamannafélaga þriðja stærsta sérsambandið innan ÍSÍ, með rúmlega 11.000 félagsmenn.


Fréttir