• iStock_Faroe_Island

Mikilvægt samstarf við Færeyjar

30.5.2012

Þrír starfsmenn Matís voru á ferð í Færeyjum fyrir skömmu. Þar fræddust þeir um matvælaframleiðslu og rannsóknir í eyjunum og kynntu jafnframt starfsemi Matís fyrir heimamönnum.

Haldin var fundur með hagsmunaaðilum í uppsjávarveiðum og vinnslu þar sem fjallað var meðal annars um rannsóknir Matís á þeim sviðum. Mikill áhugi var fyrir fundinum, en þar fræddust „frændur okkar“ um þróun veiða og vinnslu makríls hér á landi og þau verkefni Matís er snúa að uppsjávartegundum. Þátttakendur á fundinum voru sérstaklega áhugasamir um þá vinnu sem fram hefur farið varðandi kortlagningu stofneininga mismunandi fisktegunda með erfðafræðilegum aðferðum, sér í lagi síldar og makríls. Áhugi kom fram á meðal þátttakenda að taka meiri þátt í þeirri vinnu í framtíðinni, enda um mikla hagsmuni að tefla þar sem mögulegt er að nota erfðarannsóknir til greiningar og vöktunar stofneininga og til grundvallar skiptingu veiðiheimilda milli landa. Jafnframt  til að koma í veg fyrir blekkingar í markaðssetningu á sjávarafurðum.

Starfsmenn Matís héldu einnig fund með fulltrúum ráðuneyta, stofnana, bæjarfulltrúa og rannsóknasjóða, þar sem matarsmiðjur Matís voru m.a. kynntar. Færeyingar hyggja á stofnun nýsköpunarmiðstöðva í eyjunum og voru áhugasamir um að fræðast um reynslu Matís af rekstri matarsmiðjanna, sem starfræktar eru í Reykjavík, Hornafirði og Flúðum.
Starfsmenn Matís höfðu mikið gagn og gaman af þessari heimsókn til Færeyja og vænta þess að hún geti aukið enn á það góða samstarf sem fyrirtækið á við þarlenda aðila.

Faereyjar_5.2012 
                                                                                                                   Frá fundi í Færeyjum

Nánari upplýsingar veitir Jónas R. Viðarsson hjá Matís.


Fréttir