• Nýr Norrænn Matur

Getum við lært af dóttur Isabellu Rossellini eða getur hún lært af okkur? - Norræna eldhúsið vekur athygli!

22.3.2012

Eins og margir vita þá er Elettra Wiedermann í heimsókn á Íslandi vegna HönnunarMars 2012. Færri vita þó að hún er hvatamaður að mjög sérstökum veitingastað en hráefnin sem hún notar eru að mestu leyti staðbundin. Það sama á við um matarsmiðjur sem eru að ryðja sér til rúms um allan heim.

Nú stendur yfir fundur hér á landi um nýjan norrænan mat (New Nordic Food) og fer fundurinn fram í húsakynnum Matís. Margir góðir gestir mæta á fundinn en þar má nefna eiganda og einn stofnenda vinsælasta veitingahúss í heimi árin 2010 og 2011, NOMA – Nordic Cuisine. Claus Meyer, sem ásamt René Redzepi, stofnaði NOMA árið 2004 er hér vegna þessa fundar. Mikilvægi norrænnar matargerðar og áhugi fólks á henni hefur sjaldan verið meiri. René prýðir einmitt forsíðu TIME núna 26. mars nk. og er það til merkis um aukinn áhuga Bandaríkjamanna á því sem norrænu ríkin eru að gera í mat og drykk, þá sérstaklega þegar kemur að staðbundinni matvælaframleiðslu og fullnýtingu hráefna.

Rene_Redzepi
 René Redzepi

Mikilvægi matarsmiðja er verulegt, ekki bara hér á Íslandi heldur víðar, þá sérstaklega á hinum Norðurlöndunum. Flestar frændþjóðir okkar hafa lagt umtalsverðar upphæðir í að styðja við matvælaframleiðslu úr nærumhverfinu, bæði fyrir uppbyggingu ferðamennsku en ekki síður til að skapa aukin verðmæti sem sjálf salan á matvælum skapar. Þegar horft er til staðbundinnar matvælaframleiðslu er óhætt að segja að fátt annað stuðli að jafn heilbrigðri uppbyggingu atvinnulífs. Hér er veri ð að búa til verðmæti úr alvöru vöru, ekki ímyndaðri vöru eins og við þekktum fram að hruni árið 2008. Staðbundin matvælaframleiðsla er gríðarlega mikilvæg fyrir efnahag hvers svæðis og hvers lands en ekki síður vegna ímyndarsköpunar landanna sjálfra í stóru samhengi þar sem fullnýting hráefna er oftar en ekki haft að leiðarljósi.

Í matarsmiðjum Matís býðst frumkvöðlum og litlum fyrirtækjum tækifæri til að stunda vöruþróun og hefja smáframleiðslu á matvælum gegn vægu leigugjaldi. Þannig spara þeir sér fjárfestingu í dýrum tækjabúnaði strax í upphafi rekstrar. Með þessu gefst einstakt tækifæri til að prófa sig áfram bæði við framleiðsluna og á markaði. Sérstök áhersla er á uppbyggingu í tengslum við staðbundin matvæli  og matarferðaþjónustu.

Aðstaðan er hugsuð til notkunar á landsvísu. Forsenda þess að komast í aðstöðuna er að kaupa ráðgjöf um góða framleiðsluhætti í upphafi. Þannig munu notendur læra rétt vinnubrögð frá upphafi. Með aðstöðunni í Matarsmiðjunni á Hornafirði gefst einstakt tækifæri til nýsköpunar í smáframleiðslu matvæla. Nú þegar er fjöldi verkefna komin í gang í matarsmiðjum Matís og er sífelld aukning í áhuga á smiðjunum.

Meira um Goodness, veitingastað Elettru Wiedermann, má finna hér og upplýsingar um NOMA veitingastaðinn má finna hér.

Nánari upplýsingar veitir Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís.


Fréttir