• Bacterial_colonies

Alþjóðlegt samstarf er lykillinn að framþróun rannsókna

14.3.2012

Matís er ekki aðeins öflugt rannsókna- og þekkingarfyrirtæki á íslenskan mælikvarða heldur stenst Matís fyllilega samanburð við sambærileg erlend fyrirtæki og stofnanir.

Sem dæmi er leitun að fyrirtæki með jafn mikla og víðfeðma þekkingu og reynslu innanborðs á rannsóknum sem tengjast sjávarfangi. Á því sviði má segja að Matís sé með allra fremstu fyrirtækjum í heiminum,“segir Hörður G. Kristinsson, rannsóknastjóri Matís.

Frá upphafi hefur alþjóðlegt rannsóknar- og þróunarstarf Matís og þátttaka í erlendum verkefnum aukist jafnt og þétt og er nú orðið stór hluti af starfsemi þess. Starfsfólk Matís býr í senn yfir menntun og víðtækri reynslu sem nýtist í verkefnatengslum í nánast öllum heimsálfum.

„Þessi sókn á erlend mið er nauðsynleg til að viðhalda öflugu starfi Matís og tengja starfsemina enn frekar við sterka rannsóknar- og þróunarhópa erlendis.  Alþjóðlegt samstarf er lykilinn að frekari framþróun rannsókna til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag. Sem dæmi um þann mikla árangur sem náðst hefur í starfi Matís má nefna að við erum nú þátttakendur í um 30 alþjóðlegum rannsóknarverkefnum. Af þeim leiðir Matís yfir tíu verkefni sem öll eru mjög stór og með mörgum alþjóðlegum samstarfsaðilum,“ segir Hörður.

Nýjar aðferðir - ný nálgun
Hörður nefnir sem dæmi Amylomics og Ecofishman, hvort tveggja verkefni sem eru myndarlega styrkt úr sjöundu rammaáætlun Evrópusambandsins og hlutu framúrskarandi mat. Verkefnin eru mjög ólík en Hörður segir þau endurspegla vel þá miklu breidd og sérfræðiþekkingu sem er hjá Matís. „Amylomics verkefnið snýst um að finna ný ensím úr íslenskum hverum til að umbreyta sterkju á nýjan máta. Þetta getur leitt til byltingar í notkun nýrra sterkjuafbrigða t.d. í matvælaiðnaði, auk þess að koma nýjum íslenskum ensímum í framleiðslu. Ecofishman verkefnið snýst um að skoða nýja nálgun í fiskveiðistjórnun þar sem hagsmunaaðilar hafa tækifæri til að hafa áhrif á þróun fiskveiðistjórnunar. Útkoma verkefnisins getur leitt til mikilvægra umbóta á núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi, öllum til hagsbóta,“ segir Hörður.

Matís í öllum heimsálfum
Auk stórra Evrópuverkefna er mikill kraftur í norrænu samstarfi Matís. Sem sjá má af framúrskarandi árangri Matís í að afla sér styrkja hjá Nordic Innovation Program haustið 2011. Matís leiðir fimm stór verkefni sem fengu styrk úr sjóðnum og er þátttakandi í nær öllum verkefnum sem voru styrkt.

„Þetta er gott dæmi um þann mikla kraft og metnað sem er í starfi Matís.  Verkefnin eru allt frá því að þróa nýjar neytendavörur úr íslensku þangi í að búa til áætlun um markaðssetningu norrænna hvítfiskafurða,“ segir Hörður.
Erlent samstarf Matís er ekki aðeins bundið mörkum Evrópu. Verkefni fyrirtækisins og samstarfsaðilar eru í nær öllum heimsálfum. Má sem dæmi nefna þróunarverkefni sem hófst haustið 2011 fyrir stjórnvöld í Tansaníu tengt rannsóknum á fiski, fiskvinnslu og úttekt á félagslegri stöðu fiskveiðisamfélaga við Tanganyikavatn. Matís hefur síðustu misseri unnið önnur mikilvæg þróunarverkefni í Afríku, t.d. í Kenía og í Mósambik sem tengjast gæðamálum og þjálfun fiskeftirlitsmanna og tæknifólks. Hinum megin við Atlantshafið hefur Matís m.a. tekið þátt í fiskeldisverkefnum í Chile og rannsóknum á lífvirkum sjávarefnum í Bandaríkjunum í samstarfi við bæði háskóla og stór fyrirtæki. Einnig er nýhafið verkefni með kanadískum vísindamönnum þar sem rannsökuð verða áhrif fiskipróteina á sykursýki tvö, sem er vaxandi vandamál á heimsvísu. Þessi verkefni eru flest tilkomin vegna þeirrar sérþekkingar og reynslu sem starfsmenn Matís hafa og er afar eftirsótt á heimsvísu.

Met í fjölda nemendaverkefna
Hlutverk og þáttur Matís í menntun og þjálfun nemenda hefur farið vaxandi og er fyrirtækið með sterk tengsl við marga virta erlenda háskóla. Hörður nefnir mjög farsælt samstarf við UNU, Háskóla Sameinuðu þjóðanna, frá stofnun hans en starfsmenn Matís gegna veigamiklu hlutverki í kennslu við svokallaða gæðalínu skólans og eru nemendur staðsettir hjá Matís og gera sín lokaverkefni þar. „Síðastliðið ár var sett nýtt met í fjölda nema á Matís sem unnu að hinum og þessum verkefnum. Þar af voru margir erlendir nemar víðsvegar úr heiminum sem nutu góðs af leiðsögn vísindamanna Matís og þeirri framúrskarandi aðstöðu sem fyrirtækið getur boðið nemendum. Þeim þykir Matís spennandi kostur vegna þess hversu vel fyrirtækið er tengt bæði háskólaumhverfinu og fyrirtækjum, enda eru flest nemendaverkefnin af þeim toga að verið er að vinna vísindaleg verkefni með hagnýtingu í huga.“

Nánari upplýsingar veitir Hörður.


Fréttir