• iStock_Food_Innovation_CopyRight_Swoosh-R

Háskólanemar hvattir til að hanna sína eigin framtíð

12.3.2012

Aukið samstarf háskóla og rannsóknastofnana leiðir af sér nýtt námskeið, það fyrsta sinnar tegundar á Íslandi.

Fimm háskólar eru nú um nokkurt skeið búnir að vera í samvinnu við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Matís og eru að bjóða upp á fyrsta námskeið sinnar tegundar á Íslandi. Námskeiðið ber heitið "Vistvæn nýsköpun matvæla" og er nemendum frá mismunandi námssviðum og mismunandi háskólum stefnt saman og þeir leiddir í gegnum alla þá þætti sem viðkoma ferlinu frá því að forma hagkvæma vöruhugmynd að því að þróa fullbúna vistvæna vöru og koma henni á innlenda og erlenda markaði.

Talað er um nýsköpun sem vænlegan og áhrifaríkan kost til að skapa vöxt og hagnað, bæði innan einstakra fyrirtækja og heilla hagkerfa. Full ástæða þykir til að mennta og þjálfa íslenska háskólanemendur í þeim nýsköpunarferlum sem stuðla að tilurð, markaðssetningu og sölu nýrra vöruhugmynda.  Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Landbúnaðarháskólinn, Listaháskólinn og Háskólinn á Hólum hafa því tekið höndum saman í samvinnu við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Matís og bjóða upp á námskeið þar sem nemendurnir sjálfir skapa nýjar vöruhugmyndir og þróa fullmótaðar og markaðshæfar vörur í samstarfi við atvinnulífið, rannsóknargeirann og nemendur frá öðrum sérsviðum og skólum þannig að sérþekking úr mismunandi áttum nýtist í heildarferlinu. Árangur í vöruþróun byggir meðal annars á slíku samstarfi og samvinnu aðila með ólíka faglega þekkingu og reynslu og er sjálfbær nýting auðlinda og áhrif framleiðslu-, vinnslu- og dreifiaðferða  á umhverfið einnig farin að hafa mikil áhrif á nýsköpun í matvælaiðnaði.

Kallaðir eru til aðilar frá landbúnaðinum, matvælafyrirtækjum, rannsóknarstofnunum ásamt háskólakennurum á viðeigandi sviðum til að tryggja að nýsköpunarhugmyndirnar sem koma fram  grundvallist á íslensku hráefni, íslenskri sérþekkingu og íslenskum hagsmunum. Teymi nemenda eru mynduð þvert á háskólana og þvert á viðkomandi fagsvið þannig að sérþekking hvers og eins nýtist. Það er til mikils að vinna en sú vöruhugmynd sem ber sigur úr býtum í keppni um vænlegustu og vistvænustu nýsköpunarhugmyndina á matvælasviði sem haldin verður í lok námskeiðsins fær að taka þátt í evrópukeppninni Eco-Trophelia, þar sem vistvænar nýsköpunarhugmyndir á matvælasviði frá ýmsum löndum í Evrópu munu keppa sín á milli.

Keppnin á Íslandi verður haldin í tengslum við Hönnunarmars og munu nemendur etja kappi með hugmyndir sínar og vörur fyrir luktum dyrum 23. mars nk. Úrslit verða svo kunngjörð með pompi og prakt laugardaginn 24. mars.

Hópurinn sem sigrar fær vegleg verðlaun og verða meðlimiðir hans fulltrúar Íslands í EcoTrophelia evrópukeppninni.

Nánari upplýsingar veitir Fanney Frisbæk hjá Nýsköpunarmiðstöð, fanney@nmi.is, 522-9144.


Fréttir