• Logo_Salmofood

Veitir ráðgjöf í þróun fiskafóðurs í Chile

9.2.2012

Jón Árnason, fóðurfræðingur og verkefnastjóri hjá Matís, hefur um nokkurra ára skeið setið í þróunarnefnd eins stærsta fiskafóðursframleiðanda Chile, Salmofood S.A. Fyrirtækið er í meirihlutaeigu þarlendra fiskeldisfyrirtækja og framleiðir um 60 þúsund tonn af fóðri á ári.

Í þróunarnefndinni eru fulltrúar fyrirtækisins sem stýra framleiðslu þess, tveir fulltrúar Nofima í Noregi, sem er eitt stærsta fyrirtæki heims á sviði rannsókna og fræða hvað fiskafóður varðar og Jón, sem fulltrúi Matís. Hann segir að óumdeilanlega sé þátttaka sín í þessu starf í Chile mikil viðurkenning á þeirri þekkingu sem byggst hefur upp hér á landi á undanförnum árum í þróun og framleiðslu á fóðri fyrir fiskeldi.

„Þetta hófst með því að til mín var leitað fyrir um 10 árum um þátttöku í þessu starfi en þá starfaði ég hjá Fóðurverksmiðjunni Laxá hf. Síðan þá höfum við hist reglulega á vinnufundum í Chile og þessi langi tími undirstrikar að fyrirtækið hefur talið sig fá verðmæta þekkingu til framþróunar í fóðurframleiðslu sinni með minni reynslu héðan frá Íslandi,“ segir Jón í samtali en bæði hefur nefndin unnið með upplýsingar um næringarþörf fiskjarins, samsetningu fóðursins og þætti sem snúa að aukinni hagkvæmni í fóðurframleiðslunni.

„Starf okkar hefur skilað breytingum sem hafa styrkt þetta fyrirtæki í samkeppni og þar með styrkt stöðu eigendanna sem fyrst og fremst eru fisk framleiðendur í Chile. Þarna er framleiðslan fyrst og fremst Atlantshafslax, Kyrrahafslax og regnbogasilungur og því þarf að miða fóðurþróunina út frá þessum tegundum,“ segir Jón en þróunarnefndin hittist að jafnaði tvisvar á ári í Chile og vinnur samfleytt í viku í senn.

„Við förum yfir allt það nýjasta sem fram kemur í fóðurfræðunum, ræðum sértæk mál sem kunna að hafa komið upp í eldi eða framleiðslunni, förum yfir gæðamál og sömuleiðis gerum við talsvert af því að heimsækja viðskiptavini fyrirtækisins í Chile og ræða beint við þá. Þátttaka í þessu starfi er að mínu mati mjög verðmæt fyrir okkur hjá Matís og íslenskt fiskeldi. Bæði til að fylgjast með því nýjasta sem uppi er hverju sinni en einnig að mynda tengsl við aðila á borð við Nofima í Noregi. Innan veggja þess fyrirtækis eru leiðandi aðilar í fiskeldisfræði og fóðurgerð og skiptir miklu að skapa góð tengsl við þá,“ segir Jón.

Nánari upplýsingar: Jón Árnason


Fréttir