• World Map

Alþjóðlegt samstarf í brennidepli í ársskýrslu Matís 2011

16.12.2011

Senn líður að því að ársskýrsla Matís komi út en stefnt er á að skýrslan komi úr prentun seinni partinn í janúar. Ef þú hefur áhuga á því að vita þegar skýrslan verður gefin út eða um annað sem fram fer hjá Matís þá getur þú skráð þig á póstlistann okkar hér.

Alþjóðlegt samstarf er fyrirferðamikið í skýrslunni sem tekur til fimmta heila starfsárs Matís. Í ársskýrslunni 2011 er veitt innsýn í hvernig Matís hefur, þrátt fyrir ungan aldur, skapað sér tengsl og orðspor erlendis. Markvisst og meðvitað hefur Matís á árinu sem er að ljúka aukið áherslu á erlend verkefni, enda styrkja þau starfsemina hér á landi, efla íslenskt vísindastarf almennt, styrkja atvinnulífið og á endanum skilar ávinningurinn sér til hins almenna Íslendings í formi fleiri og fjölbreyttari atvinnutækifæra og sóknarfæra fyrir landið.

Íslendingar greiða talsvert til sameiginlegra rannsóknarsjóða í Evrópu og með erlendu vísindasamstarfi má í raun sækja það fjármagn til baka, með góðri ávöxtun ef vel er unnið. Grunnur að því er sterkur kjarni vísindafólks og hann er til staðar hjá Matís. Við finnum í vaxandi mæli að til okkar er horft af erlendum aðilum, enda hefur árangur af erlendum samstarfsverkefnum okkar verið góður. Við höfum margt eftirsóknarvert fram að færa og getum styrkt stöðu Íslands með þekkingu sem við sækjum okkur í gegnum þetta samstarf. Með alþjóðlegum verkefnum fáum við aðgang að aðstöðu sem við annars hefðum ekki og tengslum við sérfræðiþekkingu á afmörkuðum sviðum.

Með auknu alþjóðlegu vísindasamstarfi má segja að brotið sé blað. Íslendingar gjörþekkja útflutning á vörum í gegnum aldir og er þar skemmst að minnast sjávarútvegsins. Þar er bæði um að ræða hráefnisútflutning og einnig meira unnar vörur. Í vísindastarfinu má tala um að við færum okkur úr útflutningi á hráefnum yfir í hagnýtingu íslenskrar þekkingar á matvælaframleiðslu, undirstöðuatvinnugreinar þjóðarinnar í gegnum aldirnar. Því „þekkingarhráefni“ breytum við í enn verðmætari vöru sem við bæði getum nýtt okkur í frekari sókn erlendis og einnig hér heima, til framþróunar í matvælaframleiðslu. Þess ávinnings njóta, auk okkar hjá Matís, aðrir innlendir rannsóknaraðilar, stofnanir, háskólar og fyrirtæki.

Uppbygging Matís og áherslur fyrirtækisins gera okkur kleift að sækja fram á erlendum vettvangi. Við höfum yfir að ráða sérþekkingu á mörgum þáttum í sjávarútvegi og einnig má nefna einstakar aðstæður til líftæknirannsókna hér á landi vegna t.d. hverasvæðanna, jökla og náttúrunnar bæði á landi og í sjó. Margar atvinnugreinar gætu því notið góðs af því erlenda starfi sem Matís hefur hrundið af stað en ekki hvað síst eru tækifærin skýrust í sjávarútvegi. Nýjar áherslur á því sviði eru m.a. markaðstengd verkefni og áherslur sem snúa að umhverfismálum og umhverfisáhrifum. Við Íslendingar eigum sannarlega möguleika á að skapa okkur enn sterkari stöðu á afurðamörkuðum heimsins með fiskafurðir okkar. Alþjóðastarf Matís mun hjálpa til í þeirri vinnu á komandi árum.

Svipaða sögu er að segja um íslenskan landbúnað. Þeirri grein munu opnast möguleikar í náinni framtíð erlendis, ekki hvað síst með auknu vísinda- og rannsóknarstarfi. Matís horfir einnig til þeirra möguleika.

Vísindamenn okkar skynja að á erlendum vettvangi höfum við orðspor til að byggja á. Ekki bara vegna þess að við erum Íslendingar heldur vegna þess sem við getum, þekkjum og kunnum.


Fréttir